1200 skjálftar síðasta sólarhring og áframhaldandi kvikusöfnun
Um það bil 1200 jarðskjálftar hafa mælst síðasta sólahring, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingarfells svipað og daginn áður. Stærsti skjálftinn var M3,4 að stærð klukkan 00:31 í nótt skammt sunnan við Þorbjörn. Skjálftavirknin heldur áfram á sama dýpi og áður. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Landris heldur áfram á svipuðum hraða og hefur verið skv. Gervitungla- og GPS gögnum. Bylgjuvíxlmynd fyrir tímabilið 28. október til 6. nóvember sem sýnir nær lóðrétta hreyfingu staðfestir það, en einnig sýnir hún hliðrun vegna sprunguhreyfinga tengt jarðskjálftavirkninni.
Uppfærð líkön byggð sömu gögnum áætla að kvikusöfnun í lárétta syllu á um 5 km dýpi heldur áfram og frá upphafi þenslumerkisins (27. október) er meðal innflæði áætlað um 5 m3/s (óvissa er ±2 m3/s).