120 ökumenn kærðir fyrir umferðarlagabrot
-nýr búnaður lögreglunnar í Keflavík gefur góða raun.
Síðustu þrjár vikur hefur lögreglan í Keflavík haft til afnota lögreglubifreið frá Ríkislögreglustjóra sem er með sérstökum hraðamælingabúnaði. Bifreiðin er búin ratsjá með upptökubúnaði fyrir hljóð og mynd, en nægilegt er að einn lögreglumaður sé í lögreglubifreiðinni við hraðamælingar og umferðareftirlit. Í náinni framtíð munu allar lögreglubifreiðar verða með þennan búnað innanborðs hjá lögreglunni í Keflavík. Guðmundur Sæmundsson lögreglumaður sagði að búnaðurinn væri einfaldur í notkun. „Þessi búnaður er í raun algjör bylting í öllu umferðareftirliti. Öll brot eru tekin upp með myndavél í bílnum og samtöl lögreglumanns og ökumanns eru tekin upp inn í lögreglubifreiðinni.“
Á 15 dögum hafa 120 ökumenn verðið kærðir þar sem þessi nýi búnaður kemur við sögu og frá 20. október hafa 180 ökumenn verið kærðir fyrir hraðakstur hjá lögreglunni í Keflavík.
VF-ljósmynd/JKK: Búnaðurinn sem lögreglan í Keflavík notar við umferðareftirlit. Inn í bílnum er sjónvarpsskjár þar sem fram kemur á hvaða tíma myndin er tekin og hraði bifreiðarinnar sem mæld er.