Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

120 milljónir króna í Víkingaheim
Laugardagur 8. október 2005 kl. 21:56

120 milljónir króna í Víkingaheim

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, skrifuðu undir samning um borð í víkingaskipinu Íslendingi í gærkvöldi, þess efnis að ríkið myndi verja 120 milljónum til uppbyggingar Víkingaheimi, við ströndina í Njarðvík.

Eftirlíking af Kaldárhöfðasverði var afhjúpuð á Víkingatorgi í Reykjanesbæ en sverðið fannst í landi Kaldárhöfða í maímánuði 1946. Talið er að sverðið hafi verið í eigu höfðingja sem uppi var á 10. öld og geymir því merkilega sögu. Stefán Geir Karlsson sá um gerð sverðsins sem er úr graníti og 7 metra hátt en Sparisjóðurinn í Keflavík, Magnús Magnússon frá Höskuldarkoti og Íslendingur ehf. kostuðu framkvæmdina.

Sverðinu var fundinn staður á miðju Víkingatorgi, nýjasta hringtorginu í bænum, og vísar það á Víkingaheim, við ströndina í Njarðvík. Víkingaheimur mun samanstanda af sýningarhúsi víkingaskipsins Íslendings og sýningunni Vikings - The North Atlantic Saga. Sýningin mun að mestu samanstanda af munum sem Smithsonian safnið í Bandaríkjunum lánaði Reykjanesbæ.

Eftir afhjúpunina var haldið um borð í Íslending þar sem samningurinn um Víkingaheim var undirritaður. Mun ríkið á næstu sex árum leggja til 20 milljónir á ári til uppbyggingar Víkingaheimi.

Hins vegar liggur ekki enn fyrir hvaða fleiri aðilar koma að verkinu. Að sögn Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, er unnið að stofnun félags vegna framkvæmdanna. Áætlað er að sýningarhús Íslendings og sýningin verði opnuð árið 2007.

Video: Viðtal við Árna Sigfússon, bæjarstjóra (.mov - ca 9 MB)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024