102 missa vinnuna hjá Varnarliðinu
Flotastöð Varnarliðsins og fulltrúar stéttarfélaga hafa lokið samráðsviðræðum vegna ráðstafana sem nauðsynlegt er að grípa til vegna niðurskurðar á rekstrarfé til stöðvarinnar. Yfirmenn flotastöðvarinnar eru ánægðir með niðurstöður viðræðnanna og meta mikils framlag stéttarfélaganna.
Flotastöðin hefur, að teknu tilliti til hugmynda stéttarfélaganna og trúnaðarmanna starfsmanna og eftir endurskoðun áætlana um sparnað á öðrum sviðum, komist að þeirri niðurstöðu að segja verði upp 102 íslenskum starfsmönnum stöðvarinnar. Að höfðu samráði við stéttarfélögin hyggst Flotastöð Varnarliðsins veita þeim sem sagt verður upp störfum aðstoð við aðlögun og atvinnuleit.Uppsagnir starfsmanna eru óhjákvæmilegar til þess að Flotastöð Varnarliðsins geti sinnt grundvallarskyldum sínum vegna reksturs Keflavíkurflugvallar, t.d. rekstur flugvallarslökkviliðs og öryggisþjónustu, og vegna öryggis landsins. Rétt er að geta þess að launagreiðslur nema 74% af rekstrarfé stöðvarinnar. Niðurskurður í rekstri flotastöðvarinnar snertir ekki varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna né umræður um framtíð Varnarliðsins eða endurskoðun á viðbúnaði Bandaríkjahers á heimsvísu sem nú er til athugunar. Eingöngu er um að ræða viðbrögð við lækkun fjárframlaga til reksturs stöðvarinnar sem kynnt hafa verið íslenskum stjórnvöldum, stéttarfélögum og trúnaðarmönnum starfsmanna.
Starfsmönnum Flotastöðvarinnar sem sagt er upp störfum og leita vilja annarra starfa hjá Varnarliðinu mun veitt viðeigandi aðstoð og ráðgjöf. Þá býðst þeim að leita ráðgjafar vinnusálfræðings og aðstoðar ráðningarþjónustu í leit að starfi á almennum vinnumarkaði sér að kostnaðarlausu. Til að auðvelda starfsmönnum leit að nýju starfi býðst þeim að fá leyfi án launaskerðingar í allt að einum starfsdegi á hverju tveggja vikna launatímabili. Þá verða starfsmenn undanþegnir mætingarskyldu síðasta mánuðinn miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest og hlutfallslega miðað við styttri uppsagnarfrest. Er þeim þá frjálst að ráða sig í vinnu annarsstaðar án launaskerðingar.