Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

100 viðburðir á Ljósanótt
Föstudagur 3. september 2004 kl. 10:01

100 viðburðir á Ljósanótt

Um eitt hundrað viðburðir eru á dagskrá Ljósanætur sem formlega var sett í gær með upphafi fjölmenningarhátíðar fyrir utan Myllubakkaskóla. Í dag eru fjölmargir viðburðir á dagskránni, s.s. myndlistarsýningar og tónleikar.

Fjóla Gullsmiður er með krossasýningu í verslun sinni að Hafnargötu 21 og á Hafnargötu 22 er sýning á besta Íslenska handverkinu árið 2004 frá Handverki og hönnun í Reykjavík. Í Svarta pakkhúsinu er samsýning félags myndlistarmanna og Fríða Rögnvalds og Jónas Hörðdal eru með myndlistarsýningu í bíósalnum í DUUS-húsum. Listsýningin Fjarskipti verða áfram í Fischershúsinu, en það eru tvíburasysturnar Brynhildur og Gunnhildur Þórðardætur sem setja þá sýningu upp. Á Ránni er myndlistarsýning Þorsteins Eggertssonar og í Kastalanum er handverk til sýnis.

Á tónlistarsviðinu verður ýmislegt að gerast í dag en frá klukkan 13 til 16 mun Þorvaldur Már Kristinsson gítarleikari spila í Landsbanka Íslands í Keflavík. Klukkan 16:30 munu Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson skemmta gestum í afgreiðslu Sparisjóðsins í Keflavík við Tjarnargötu.
Klukkan 18 verða tónleikar Dúetsins Djass í Listasafni Reykjanesbæjar í DUUS-húsum en í dúetnum eru Birta Rós Sigurjónsdóttir og Steingrímur Karl Teague.
Klukkan 20:30 mun hljómsveitin Guitar Islancio halda tónleika í listasal DUUS-húsa og er aðgangur að tónleikunum ókeypis á meðan húsrúm leyfir. Tónleikarnir eru í boði Landsbanka Íslands.
Páll Rósinkrans og félagar verða með Eric Clapton dagskrá á Ránni en tónleikarnir eru á vegum RNB félagsins og á Zetunni spilar hljómsveitin VAX einnig í boði RNB félagsins.
Nánari upplýsingar um dagskrá Ljósanætur má sjá í Ljósanæturblaðinu sem dreift var með Víkurfréttum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024