Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

100 manns sögðu Stopp í Stapa
Fimmtudagur 14. september 2006 kl. 19:22

100 manns sögðu Stopp í Stapa

Um eitthundrað manns sóttu borgarafund í tengslum við umferðarátakið Nú segjum við stopp. Fundurinn var haldinn í Stapa. Á fundinum flutti Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík, ávarp Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Einnig sögðu þeir Jón Guðlaugsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, og Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, reynslusögur sínar.

Jón kom að tengdasyni sínum látnum eftir umferðarslys skammt utan við Sandgerði nú í ágúst, þar sem tveir menn létust eftir ofsaakstur aðila sem kom úr gagnstæðri átt. Kristján sagði reynslusögu sína en sonur hans lenti í alvarlegu umferðarslysi í Sandgerði fyrir rúmum áratug síðan og er bundinn við hjólastól og lamaður frá brjósti.

Séra Sigfús B. Ingvason ræddi um sorgina og fór með bæn og þá var flutt tónlist. Áhugafólk um umferðaröryggi hefði viljað sjá fleiri á fundinum en þá 100 sem mættu. Það var þó bent á það í fundarlok að mætingin á fundin væri áþekk þeim fjölda sem lögreglan í Keflavík tekur fyrir hraðakstur á einum mánuði.

Efri myndin: Hjálmar Árnason alþingismaður, Jóhannes Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, séra Sigfús B. Ingvason prestur í Keflavíkurkirkju, Jón Guðlaugsson varaslökkviliðssjóri BS og Steinþór Jónsson sem var fundarstjóri.

 

Neðri myndin: Jóhannes Jensson flytur ávarp Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Á sviðinu er skilti með nöfnum þeirra sem látist hafa í umferðinni það sem af er þessu ári.

 

 

Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024