100 manna hvalaskoðunarferðir frá Sandgerði
Skemmtiskipið Elding verður gert út frá Sandgerði í sumar til skemmtisiglinga ýmiskonar. Grétar Sveinsson og fjölskylda gera út skipið en þau verða í nánu samstarfi við Veitingahúsið Vitann í Sandgerði sem mun sjá um allar veitingar um borð í skipinu.Brynhildur Kristjánsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá rekstrarfélagi Eldingar. Hún sagðist í samtali við Víkurfréttir bjartsýn á sumarið.„Við getum boðið upp á hvalaskoðunarferðir fyrir allt að 100 manns eða haldið matarveislu um borð fyrir allt að 85 manns í sæti í tveimur sölum. Þá erum við með 25 sjóstangir þannig að möguleikarnir eru miklir“.Eldingin verður í daglegum ferðum frá Sandgerði sem taka tvo og hálfan til þrjá tíma en einnig er hægt að komast í aðrar ferðir eftir samkomulagi. „Um síðustu helgi fengum við t.a.m. 90 manna hóp frá BYKO og buðum upp á sjávarréttahlaðborð undir berum himni. Það tókst frábærlega enda veðrið glæsilegt“.Þeir sem vilja komast í ferð með Eldingu frá Sandgerði geta haft samband við Brynhildi í síma 692 4210.Skipið verður til sýnis á sunnudaginn milli kl. 14 og 16. Athugið að börn séu í fylgd með fullorðnum.