10 milljón króna afgangur varð að 340 milljón króna halla
Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir fjárhagsáætlanir Sjálfstæðismanna undanfarin ár hafa í engu staðist. Ár eftir ár séu lagðar fram áætlanir sem ekki standist sem gerir að verkum að skuldir sveitarfélagsins aukist sífellt, þrátt fyrir auknar tekjur bæjarsjóðs. Sú fjárhagsáætlun sem lögð var fram í upphafi síðustu kosningabaráttu hafi í raun verið kosningapési og nú sé enn einn kosningavíxillinn kominn fram. Þetta segir í harðorðri bókun sem Guðbrandur Einarsson (A) lagði fram fyrir hönd minnihlutans á bæjarstjórnarfundi í gær þegar endurskoðuð fjárhagsáætlun 2006 var lögð fram. Bendir minnihlutinn á að 10 milljón krónu rekstrarafgangur sé nú orðinn að 340 milljón króna halla í endurskoðaðri áætlun.
Böðvar Jónsson (D), formaður bæjarráðs, varð til svara í umræðu um málið og benti hann m.a. á að íbúafjölgun hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir áætlunni. Ljóst væri að þegar mikil uppbygging og fólksfjölgun væri í samfélaginu væri erfiðara að gera haldbærar fjárhagsáætlanir. Rétt væri að nokkur breyting hafi orðið á áætluninni bæði hvað varðar skattekjur og launaliði sem hækkuðu frá upphaflegri áætlun um 180 milljónir króna. Þar hafi borið hæst hækkun launa leikskólakennara, heimild launanefndar til hækkunar lægstu launa, starfsmat og nýja kjarasamninga BHM, að sögn Böðvars. Önnur rekstrargjöld hækkuðu um 140 milljónir frá því sem gert var ráð fyrir.
Bókunina í heild er hægt að sjá á vef Reykjanesbæjar í fundargerð bæjarstjórnar: