10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árás
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, en maðurinn réðist á annan mann á veitingastað í Keflavík í mars á þessu ári og barði hann eitt högg í andlitið svo hann kjálkabrotnaði. Fram kemur í dómnum, að árásarmaðurinn hefur frá árinu 1993 átta sinnum sætt sektarrefsingu, þar af þrívegis fyrir minni háttar líkamsárásir, en í mars í ár var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar líkamsárás. Þá var hann í júní dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik, segir í frétt á mbl.is.
Fram kemur að árásarmaðurinn var ofurölvi er hann veittist að hinum manninum í Keflavík og hefur enga skýringu getað gefið á framferði sínu. Hann segist nú hafa hætt allri áfengisneyslu og sæki AA fundi reglulega og vera í viðtalsmeðferð hjá geðhjúkrunarfræðingi. Hann stundi vinnu af kappi, sé í sambúð og eigi von á barni innan tíðar. Í dómnum segir að maðurinn hafi játað hreinskilnislega brot sitt fyrir dómi og sýnt að mati dómsins augljós merki iðrunar. Á hinn bóginn verði ekki litið framhjá því að atlagan var tilefnislaus og hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar, sem enn sé ekki séð fyrir endann á, en sá, sem á var ráðist, hlaut slæmt brot á neðri kjálka, missti tvær tennur og hafi enn viðvarandi doða í neðri vör, sem að áliti sérfræðings sé ólíklegt að muni nokkru sinni hverfa. Héraðsdómari segir síðan, að með framangreind atriði öll í huga og að teknu tilliti til aldurs mannsins, sem sé 28 ára gamall og eigi því að vera búinn að öðlast meiri þroska en svo að hann áreiti saklaust fólk á skemmtistöðum, þyki refsing hæfilega ákveðin tíu mánaða fangelsi. Þar sem um hegningarauka sé að ræða við fyrrnefnda tvo dóma og í trausti þess að maðurinn hafi loks öðlast nýja sýn á tilveruna og haldi sig héðan í frá á þeirri braut, sem hann nú er á, þykir dómara enn mega ákveða að fresta fullnustu refsingarinnar, þannig að hún falli niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu.
Fleiri fréttir á mbl.is.