Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

10 ár frá baráttufundi fyrir öruggri Reykjanesbaut
Þriðjudagur 11. janúar 2011 kl. 10:20

10 ár frá baráttufundi fyrir öruggri Reykjanesbaut

- 63 mannslíf er nægur tollur fyrir Reykjanesbraut

Í dag eru liðin 10 ár frá fjölmennum borgarafundi í Stapa þar sem baráttan fyrir tvöfaldri Reykjanesbraut hófst með formlegum hætti. Borgarafundinn sóttu um 1000 manns en samstaða Suðurnesjamanna um öruggari Reykjanesbraut var mikil. Fyrir fundinn höfðu einnig safnast 9000 undirskriftir með hvatningu til stjórnvalda um að hefjast tafarlaust við framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Baráttan fyrir öruggari Reykjanesbraut hófst í kjölfar þess að þrír einstaklingar úr Reykjanesbæ létust í hörmulegu umferðarslysi á Reykjanesbrautinni, nálægt Kúagerði. Árið 2000 létust 6 einstaklingar í umferðarslysum á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur en áratuginn 1990 til 2000 urðu fimmtán banaslys á veginum. Þegar borgarafundurinn um öruggari Reykjanesbraut var haldinn þann 11. janúar 2001 höfðu 53 einstaklingar látið lífið í umferðarslysum á veginum frá því hann var lagður steypu árið 1967.


Banaslysin héldu áfram að verða eftir stóra borgarafundinn. Þannig lést kona í umferðarslysi nærri Kúagerði þann 1. desember 2001. Sex einstaklingar létust í umferðarslysum á Reykjanesbraut í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á árinu 2003.


Á miðju ári 2005 birtist um það frétt að ekkert banaslys hafi orðið á tvöfaldri Reykjanesbraut undanfarna 14 mánuði en á sama tímabili þar á undan hafi 7 einstaklingar látist í jafnmörgum slysum.


Tollurinn sem Reykjanesbraut hafði tekið frá árinu 1967 var kominn upp í 63 einstaklinga og hafði því fjölgað um 10 frá því stóri borgarafundurinn var haldinn. Í dag, 11. janúar 2011 eru hins vegar rétt tæp sjö ár síðan banaslys varð á Reykjanesbrautinni.


Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut bendir á á þessum tímamótum að fórn í umferðinni upp á 63 mannslíf sé meira en nóg í toll fyrir Reykjanesbrautina og leggst hópurinn alfarið gegn frekari tollheimtu á veginum, hvort sem það er í formi peninga eða mannslífa. Bent er á að í baráttu- og framkvæmdaferlinu kom það ítrekað fram að aldrei yrði rukkað veggjald af Reykjanesbrautinni. Það hafi verið gert í árdaga Reykjanesbrautarinnar með gjaldskýli í Straumi. Suðurnesjamenn hafi greitt sitt gjald fyrir Brautina.


Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut er ennþá starfandi og mun standa vörð um Reykjanesbrautina.


41.400 á móti vegatollum

Rúmlega 41.400 manns hafa mótmælt fyrirhuguðum vegatollum á umferð vega út frá höfuðborgarsvæðinu.


Undirskriftasöfnunin fór fram á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda en samtökin hrintu undirskrifasöfnuninni af stað í síðustu viku. Söfnuninni lýkur á hádegi í dag á fib.is.


Forsvarsmenn FÍB segja í að hugmyndin um vegatoll sé fráleit og af viðbrögðum fólks að dæma sé ljóst að þær eigi ekki upp á pallborðið hjá landanum. Samkvæmt nýrri könnun eru Suðurnesjamenn einarðastir í afstöðu sinni gegn hugmyndinni.



Þegar undirskriftasöfnunin stóð í 37.500 gerð FÍB lítilsháttar tölugreiningu á því hvaðan af landinu undirskriftirnar hafa komið og hvaða svæði væru hlutfallslega sterkust miðað við mannfjölda á landinu öllu. Þá kom í ljós að Suðurnesjamenn voru einarðastir í afstöðu sinni gegn vegatollahugmyndinni.