Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

10.000 lítrar láku niður í kjallara
Fimmtudagur 18. ágúst 2005 kl. 14:49

10.000 lítrar láku niður í kjallara

Stofnrör í úðakerfi fór í sundur á þriðju hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í morgun, með þeim afleiðingum að vatn flæddi um húsið, allt niður í kjallara. Sökum þessa þurfti að loka innritunarsalnum um tíma en vatn flæddi yfir innritunarborðin og sló út rafmagni. Þá þurfti að loka hluta af brottfararsalnum og verslun Íslensks markaðs.

„Sem betur fer höfðum við bráðabirgðainnritunarsal sem við gátum tekið strax í notkun og gátum því innritað þá farþega sem komu til innritunar,“ sagði Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Flugstöðvarinnar í samtali við Víkurfréttir. „Megin starfsemin í byggingunni gekk sinn vanagang og sem betur fer slapp þetta fyrir horn.“

Eftir er að meta hversu miklar skemmdir urðu á flugstöðinni. „Menn frá tryggingarfélaginu eru á leiðinni en það er talið að um 10 tonn af vatni hafi lekið niður,“ sagði Höskuldur.

Hluta innritunarsalsins átti að taka í notkun um klukkan 14 en notast verður við bráðabirgðasalinn þar til. Ekki er vitað til þess að tafir hafi orðið á flugi en fólk er hvatt til þess að mæta tímanlega í flug.



 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

VF-myndir/Margrét

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024