1,9 milljónir söfnuðust í „Hjólað til heilla“
Söfnunarfé átaksins „Hjólað til heilla“ var afhent á skrifstofu Styrktarfélags krabbameinssjúkra (SKB) barna nú í vikunni. Það var Haraldur Hreggviðsson hjólakappi úr Njarðvík sem var upphafsmaður átaksins en hann ákvað að hjóla hringveginn í kringum Ísland og safna áheitum fyrir SKB.
Hringferðin, sem hófst þann 10. ágúst síðastliðinn, tók 12 daga og hafði Haraldur nafna sinn Helgason sér til halds og trausts á leiðinni. Hringnum var svo lokað þegar þeir félagar renndu í hlað hjá SKB laugardaginn 21. ágúst og tók fjölmenni á móti þeim. Áheitasöfnun í tengslum við hringferðina var í umsjón Lionsklúbbs Njarðvíkur en „Hallarnir“ eru félagar í klúbbnum. Alls söfnuðust 1,9 milljónir króna í áheit og afhenti Gunnar Örn Gunnarsson formaður Lionsklúbbsins Rósu Guðbjartsdóttur formanni SKB veglega ávísun á skrifstofu SKB nú í vikunni. Rósa þakkaði Lionsklúbbnum og „Höllunum“ innlega fyrir þann frábæra stuðning sem félagið fengi með þessu fjárframlagi.
Mynd: Fv. Benedikt Gunnarsson, Óskar Örn Guðbrandsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Anna Þórdís Guðmundsdóttir, Haraldur Helgason, Þröstur Sigmundsson, Gunnar Örn Gunnarsson, Haraldur Hreggviðsson, Stefán B. Ólafsson, Guðmundur Ingólfsson, Ingólfur Bárðarson og Björn Skúlason.