Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Yndisgróður fyrir alla
Sunnudagur 19. maí 2013 kl. 09:00

Yndisgróður fyrir alla

Fyrir nákvæmlega 25 árum hélt ég sjálfum mér veislu til að fagna hátindi lífsferilsins. Mér voru þá færðar tölvuvert magn trjáplantna og runna. Ný fluttur í húsið á klettunum var það verkefni framtíðarinnar að búa sér til garð sem veitti lífsfyllingu í frístundum.

Á þeim tíma var viðvera við Sjúkrahús Keflavíkur eins og heilbrigðisstofnunin hét þá oft á tíðum býsna krefjandi, þar sem bæði öllum slysum, bráðaaðgerðum og fæðingum var sinnt af sjúkrahúslæknum. Sem ungum metnaðarfullum manni fannst ritara mikilvægt að sinna sem flestum slíkum verkefnum í heimabyggð og senda sem minnst frá sér. Þetta hafði í för með sér mikla bindingu og því forréttindi að geta skapað sér umhverfi sem hægt var að leita til á milli skylduverka. Garðurinn skyldi veita útrás fyrir sköpunargleði, auk þess sem rýmið var þess eðlis að gefið gæti upplifunina að maður byggi út á landi, enda krækiberjalyng á klettunum og mófugl á melum. Oft á tíðum fékk maður bráðaútkall í miðjum moldargreftrinum og kom ekki alltaf á deildina með hreinar neglurnar, stundum í stígvélum angandi af hrossaskít. Sá orðstír fór af Suðurnesjum þess tíma að lítið væri hér hægt að rækta annað en allra harðgerðustu plöntur, enda bera garðar þess enn merki þar sem harðgerðustu skógarplöntur eins og sitkagreni, birki, reyniviður og harðgerðar víðitegundir eru ríkjandi. Að hugsa sér að hefja ræktun með blómstrandi runnum, rósum og nú síðast berjarunnum og ávaxtatrjám var á þeim tíma fjarlægur draumur. Úrval  plantna í garðyrkjustöðvum var auk þess takmarkað og flutt inn erlendis frá þar sem vaxtarskilyrði voru gjarnan gjörólík okkar. Því gat maður búist við miklu affalli gróðursetta plantna. Ný endurvakið Skógræktarfélag Suðurnesja  lagði þó út í það metnaðarfulla ræktunarstarf að rækta upp Vatnsholtið, Rósaselsvötnin og Grænásinn, auk þess sem haldið var áfram ræktunarstörfum við Selvatnið.

Á þessum stöðum hefur landi verið breytt útivistarfólki til ánægju. Einkennisjurt Skógræktarfélagsins þess tíma var Rosa rugosa hansa, hansarósin, mikil uppáhaldsplanta ritara með sín fylltu, fallegu lillarauðu blóm og dimmgrænu holdmiklu blöð. Sem óreyndur eljusamur ræktandi hélt ritari að hægt væri að þekja Reykjanesskagann með henni og fylla rofabörð með blómskrúð. Margan fúlapyttinn hefur maður fallið í og marga plöntuna séð misfarast, en samt er þetta alltaf jafn spennandi tilvist. Sumt hefur tekist vel og er til prýði. Mér þykir miður að hafa fyrir 25 árum sett niður sitkagreni í garðinn sem hefur vaxið svo að veldur skugga fyrir sólu og er satt að segja til lítillar prýði. Samt tími ég ekki að höggva þau niður, því þau færðu á sínum tíma von um að eitthvað gæti hér vaxið. Í dag væri valið annað, en nákvæmlega hvað?

Ritari fagnar því af alhug að til sé félagsskapur sem hefur að markmiði að vera leiðbeinandi um plöntuval fyrir mismunandi landssvæði, afrakstur tilrauna og þróunar í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Reykjum. Innan þess félagsskapar eru leiðandi garðyrkjubændur sem lagt hafa metnað sinn í að skapa gagnagrunn sem hægt er að leita í þegar velja á plöntur fyrir íslenskar aðstæður. Í gagnagrunninum gefur að finna tugi há- og lágplantna sem reynst hafa vel þar sem þær hafa verið prófaðar. Slík tilraunasvæði hafa fengið nafnið Yndisgarðar og eru gjarnan staðsett innan bæjarmarka, þar sem almenningi gefst tækifæri til að heimsækja og fá hugmyndir um hvað vert sé að prófa. Einn slíkur er í Sandgerði og er vert að skoða. Aðgangur að þessum gagnagrunni er auðveldur gegnum netið. Þegar tollar voru afnumdir af plöntuinnflutningi 2007 jókst plöntuúrval að sama skapi í garðyrkjustöðvunum. Með aukinni fjölbreytni opnast takmarkalausar víddir fyrir sköpunargleðina. Samt er gott að fara að öllu með gát svo manni förlist ekki flugið í byrjun.

Því fögnum við því í Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands að fá til okkar  á síðasta fund á þessu ári Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt og garðplöntufræðing til að fjalla um verkefnið Yndisgróður og hverju það hefur skilað okkur.  Hann er lektor í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands og einn af verkefnisstjórum Yndisgróðursverkefnisins. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum flytur hann okkur mjög fróðlegt erindi þetta kvöld og hjálpar okkur að hefja ræktunarsumarið full af bjartsýni og væntingum.

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta, ekki síst þeir sem sinna ræktunarstörfum fyrir bæjarfélögin á Suðurnesjum.

Fundurinn er haldinn í Húsinu okkar  (gamla K- húsið) við Hringbraut miðvikudaginn 22. maí kl. 20.
Aðgangseyrir er 500 kr. fyrir félagsmenn, 1000 kr. fyrir aðra. Léttar veitingar í boði.

Konráð Lúðvíksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024