Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Yfirlýsing Samfylkingarinnar: Ekki vantraust á Guðbrand
Þriðjudagur 22. mars 2011 kl. 16:12

Yfirlýsing Samfylkingarinnar: Ekki vantraust á Guðbrand

Vegna úrsagnar Guðbrandar Einarssonar, fyrrum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og oddvita A-listans, er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Málefni hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri í bæjarráði, bæjarstjórn og ekki síst á fjölmörgum bæjarmálafundum Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. Á bæjarmálafundunum kom fram skýr vilji Samfylkingarfólks þess efnis að byggja ætti nýtt hjúkrunarheimili í stað þess að breyta íbúðum á Nesvöllum. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar töldu því réttast að bjóða verkefnið út til þess að: "tryggja vandaða og góða stjórnsýslu og að hagkvæmasti og besti kosturinn verði fyrir valinu." eins og bókað var í bæjarstjórn. Í þessu fólst ekkert vantraust á störfum Guðbrandar, aðeins var verið að hugsa um hag sveitarfélagsins og aldraðra. Þetta hefði Guðbrandi verið vel kunnugt ef hann hefði verið virkur í innra starfi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ en það hefur hann ekki verið síðan vorið 2010.

Hvað varðar bókun sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í bæjarstjórn 18. janúar sl. þess efnis að bjóða ríkisvaldinu til kaups land og jarðauðlindir Reykjanesbæjar, þá skrifuðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar ekki undir bókunina m.a. vegna þess að hún var borin upp með stuttum fyrirvara og lítil umræða möguleg en lögðu áherslu á að málið yrði skoðað betur og á yfirvegaðri hátt. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinar fögnuðu því reyndar í umræðum að sjálfstæðismenn hefðu skipt um skoðun og væru komnir að sömu niðurstöðu og Guðbrandur og A-listinn komust að á sínum tíma, en tóku ekki efnislega afstöðu til málsins.

Stjórn Samfylkingarinnar samþykkti á fundi sínum þann 7. mars sl. að skipa bæjarfulltrúa flokksins sem fulltrúa í stjórn HS Veitna (áður Hitaveitu Suðurnesja) á aðalfundi félagsins 25. mars nk. Hér er ekki um að ræða nýja stefnu eða vantraust á Guðbrand heldur var sú leið farin sem hann sjálfur mótaði sem oddviti sumarið 2007, þ.e. að skipa forystumenn Samfylkingarinnar í bæjarstjórn sem fulltrúa flokksins í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, nú HS Veitna.

Stjórn Samfylkingarinnar Reykjanesbæ þakkar Guðbrandi framlag hans til framgangs jafnaðarstefnunnar og störf hans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.


Reykjanesbæ 21. mars 2011

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ