Yfirlýsing frá Jarðvarma slhf
Í fréttum undanfarið af endurgreiðslu Alterra (áður Magma Energy) á láni félagsins, hefur aðkoma Jarðvarma slhf, félags í eigu lífeyrissjóða sem nýlega keypti fjórðungshlut í HS Orku, verið til umræðu. Af því tilefni vill stjórn Jarðvarma taka eftirfarandi fram:
• Við kaup Jarðvarma á hlutum í HS Orku í maí s.l. voru Alterra greiddir 8,1 milljarður íslenskra króna fyrir hluti í eigu þess. Þar með eignaðist Jarðvarmi 25% af heildarhlutafé HS Orku. Alltaf hefur legið fyrir að þeir fjármunir færu ekki inn í HS Orku. Endurgreiðsla láns Alterra, sem um er rætt, hefur því að þessu leyti engin áhrif á þessa fjárfestingu eða rekstur HS Orku.
• Það er Jarðvarma óviðkomandi hvernig Alterra háttar endurgreiðslum á lánum sem félagið hefur tekið og er það væntanlega samkomulagsatriði milli lánveitanda og lántaka eins og almennt tíðkast.
• Vegna umræðna um aflandskrónur er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að áður en ákvörðun var tekin um kaup Jarðvarma á hlutum í HS Orku yfirfóru lífeyrissjóðirnir og ráðgjafar þeirra fjármögnun Alterra á kaupum á hlutum í HS Orku. Þar var gengið úr skugga um að Jarðvarmi nyti alfarið þeirra kjara sem Alterra naut á sínum tíma af viðskiptum með aflandskrónur. Fullyrðingar um að Alterra sé að hagnast á aflandskrónuviðskiptum í samningum við Jarðvarma eru því rangar.
• Samkomulag liggur fyrir um rétt Jarðvarma á að fjárfesta í nýju hlutafé sem gefið yrði út af HS Orku, en verði af þeirri fjárfestingu renna þeir fjármunir inn í HS Orku og gera félaginu kleift að mæta fyrirsjáanlegri fjárfestingarþörf og að sækja fram með nýjum verkefnum.
Reykjavík, 3. ágúst 2011.
Ólafur Sigurðsson, stjórnarformaður Jarðvarma slhf.