Yfirgangur fárra ógn við orkuöryggi á Suðurnesjum
Ég hef í annað sinn lagt fram frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum, auka flutningsgetu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja og styðja við afhendingaröryggi á höfuðborgarsvæðinu með öflugra flutningskerfi raforku á Suðvesturhorni landsins.
Tekist hefur verið á um hvaða leið skuli farin við lagningu línunnar. Eini raunhæfi möguleikinn er lagning línunnar yfir jörðu og hafa 143 landeigendur í Vogum veitt leyfi fyrir framkvæmdinni en fimm landeigendur í Vogum ekki, og sveitarstjórn Voga ekki heldur.
Sautján ár af þvælingi í kerfinu
Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að það sé í höndum hlutaðeigandi sveitarfélaga að taka afstöðu til þess hvaða kostur verði endanlega fyrir valinu og að ákvarðanirnar þurfi að vera teknar sameiginlega hjá sveitarstjórnunum. Meirihluti er fyrir leið C, loftlínu um Hrauntungur og frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Voga samhliða Suðurnesjalínu 1, en þrjú af fjórum sveitarfélögum sem koma að framkvæmd lagningar Suðurnesjalínu 2 hafa veitt leyfi fyrir framkvæmdinni.
Framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 má segja að sé afmörkuð einskiptisaðgerð. Markmiðið með frumvarpinu er að auka skilvirkni í málsmeðferð til að tryggja framgang þjóðhagslegra mikilvægra framkvæmda í flutningskerfi raforku sem hafa farið í gegnum lögbundið undirbúnings- og samráðsferli og eru í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og stefnu um lagningu raflína. Lýðræðishallinn er augljós þegar bæjarstjórn Voga og nokkrir landeigendur, samtals ellefu manns, hafa rétt 30 þúsund íbúa á Suðurnesjum til afhendingaröryggis raforku og fyrirséðan orkuskort í hendi sér. Þetta mál hefur þvælst í sautján ár um í kerfinu.
Í samræmi við aðalskipulag Voga
Fram til ársins 2005 var raforka aðeins flutt frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja en á síðasta áratug hefur það breyst. Vinnsla á Suðurnesjum hefur aukist og verulegir flutningar eru frá Suðurnesjum til höfuðborgarsvæðisins. Mikið álag er á núverandi flutningskerfi og hætta er á alvarlegum truflunum á afhendingu ef bilanir verða. Flutningsleiðirnar eru þegar orðnar þunglestaðar.
Suðurnesjalína 2 fellur að stefnu svæðisskipulags Suðurnesja 2008–2024 sem gildir í sveitarfélögunum Vogum, Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ. Meginstefna svæðisskipulagsins er að nýta núverandi flutningsleiðir raforku og eru þær skilgreindar sem meginlagnabelti á Suðurnesjum, þ.e. Suðurnesjalínur, Reykjaneslínur og Svartsengislínur, og gert ráð fyrir að fleiri línur geti byggst upp innan þeirra. Fyrirhuguð framkvæmd um Suðurnesjalínu 2, valkostur C, er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008–2028.
Grípum í taumana
Suðurnesjalína 2 er mikilvæg framkvæmd út frá þjóðarhagsmunum og því þarf ekki að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í hana. Óviðunandi töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur velkst í kerfinu árum saman. Það er ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfisveiting til þessarar framkvæmdar hefur lent í. Það er því nauðsynlegt að grípa í taumana til að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því að framkvæmdir geti hafist. Við ættum öll að hafa hugrekki til þess.
Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður og fv. bæjarstjóri.