Minningarorð - Grétar Einarsson
(f. 11/10 ‘64, d. 16/9 ‘19) frá Old Boys Keflavík-Víðir
Markaskorarinn mikli Grétar Einarsson er fallinn frá. Það er gríðarleg eftirsjá í því fyrir okkur eldri knattspyrnumenn Keflavíkur og Víðis. Grétar var afgerandi maður að kynnast og jafnvel þótt hann væri grjótharður á velli var ávallt stutt í grínið og jákvæðnina. Grétar var einmitt maður af þeim toga sem átti erfitt með að leggja frá sér ástríðuna sem felst í því að leika knattspyrnu, jafnvel þótt aldurinn og þyngdaraflið sé farið af hafa örlítil meiri áhrif á leikinn.
Við félagar hans í flokki „eldri drengja“ (Old Boys), sem nú erum fjörutíu talsins, hittumst vikulega til þess að deila þessari ástríðu, gleði og umhyggju sem fylgir að vera hluti af góðum hópi. Það eru forréttindi að geta það og það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast Grétari í þessu umhverfi sem hann unni sér svo vel í.
Eftir farsælan knattspyrnuferil í deild hinna bestu á Íslandi átti Grétar góðar stundir í þessum hópi eldri drengja. Þar átti hann meðal annars þátt í að skila heim þremur Íslandsmeistaratitlum, þar á meðal tveimur titlum í hópi 50 ára og eldri. Grétar var mikill markaskorari og sigurvegari í hugarfari. Hann var einnig góður félagi og vék sér aldrei undan því að taka að sér önnur hlutverk ef á þurfti að halda. Okkur er það sérstaklega minnisstætt þegar Grétar tók að sér markmannshlutverkið í forföllum aðalmarkmannins og á ögurstund í Íslandsmóti 50+ hópsins sem á endanum skilaði liðinu Íslandsmeistaratitli.
Við félagar hans í þessum hópi sjáum nú á eftir Grétari sem er þriðji leikmaðurinn í hópi okkar sem fellur frá, á eftir þeim Ragnari Margeirssyni og Elís Kristjánssyni. Það er erfið hugsun og oft á tíðum óbærilegt að sjá á eftir félögum sínum svo langt um aldur fram. En svona er lífið hverfult og minnir okkur á að njóta hverrar stundar með þeim sem við kjósum að lifa með. Við „Old Boys-arar“ munum minnast Grétars og annarra vina okkar með þeim hætti sem sameinar okkur alla, en það er ástríðan fyrir fótboltanum.
Blessuð sé minning þessa góða drengs.
f.h. eldri drengja Keflavíkur-Víðis
Sigurður Garðarsson.