Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vorverkin í garðinum
Miðvikudagur 26. febrúar 2014 kl. 10:00

Vorverkin í garðinum

Fundur hjá Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands

Getur það hugsast að vorið sé að banka á dyrnar? Gaman ef væri, þótt enn sé aðeins febrúar.

Hvað boða þessar 6 heiðlóur sem sáust á Seltjarnarnesinu annað en vor. Þær sáust síðast í nóvember og því mætti ætla að þessar væru fyrstu vorboðarnir. Í bernsku dvaldi ritari löngum hér úti á Garðskaga hjá ömmu og afa og síðar móðurbróður og fjölskyldu hans. Sá var í mörgu sérstakur maður, sannkallað náttúrubarn, hávaðasamur og veðurbarinn, enda alltaf að kallast á við útsynninginn. Hann hafði hins vegar þá sérstöku eiginleika að líta á alla viðmælendur sem jafningja, hvort sem um börn eða fullorðna var að ræða. Hann var einn af fyrstu áhugamönnum um fuglamerkingar sem á þeim tíma var grundvöllur að þekkingu á ferðum og lífsháttum farfugla sem menn vissu harla lítið um. Snörur voru lagðar í ilmandi þarann í fjörunni, fuglarnir veiddir og hringmerktir. Seinna bárust tilkynningar um fund þeirra á fjarlægum stöðum, eftir að þeir höfðu fundist dauðir eða verið skotnir. Þannig aflaðist þekking um ferðir þeirra og að nokkru leyti um aldur. Sagnir lifðu um hátterni Frakka sem sagðir voru éta þúfutittlingsungana beint upp úr hreiðrinu, marineraða í rauðvíni. Fyrir ungan dreng voru það viss forréttindi að fá að kynnast náttúrunni á þennan hátt og beinlínis vera þátttakandi í vísindastarfi áhugamannsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heiðlóan skipaði ætíð sérstakt virðingarsæti í allri umgengni við fugla, hún bar af, sannkölluð þokkadís, hnarreist, hógvær og ætíð boðskapur um eitthvað eðlislega gott, hvar sem maður rakst á hana. Aldrei hefur ritari heyrt heiðlóu hallmælt. Það bar stundum til að í henni heyrðist á dimmum desemberkvöldum niðri í fjöru, eins hún væri að kveðja með angurværum rómi.  Henni var óskað góðrar ferðar á langri leið yfir höfin og væntingar um endurkomu látnar í ljós. Að hún birtist í febrúarmánuði lét enginn sér detta í hug, hennar mánuður var apríl. Krían kom 11. maí glaðklakkaleg og uppveðruð, en aldrei fyrr á Garðskagann. Enda lét heldur engum sér detta í hug að rækta rósir í þá daga. Gæti það hugsanlega verið, að þessar 6 heiðlóur af Seltjarnarnesinu hafi dvalið hér í allan vetur, líkt og sumir farfuglar, sem eru í reynd að dvelja hér í auknum mæli allt árið? Slíkar hafa veðrabreytingar orðið á undanförnum árum, að við lifum við gjörbreyttar aðstæður. Ritari á samt erfitt með að trúa að fuglar séu farnir að flýja bresku eyjarnar í leit að betri skilyrðum á Íslandi, eins og gefið hefur verið í skyn, skárra væri það. Hvað sem öðru líður hvetur heiðlóan okkur til verka – við eigum að vaka og vinna, annars gerist fátt.

Við hjá Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands ætlum að hefjast handa og hefja fræðslustarfsemi vorsins. Við ákváðum að finna nýjar víddir í fræðslustarfseminni og taka fyrir verkefni  sem ekki hefur verið minnst á áður eins og ræktun fjölæringa, grjót og tjarnir í garðinum, auk þess sem við hugsum okkur að fá nokkra garðeigendur á Suðurnesjum til að koma saman og ræða um það sem vel hefur tekist í þeirra garði og stendur upp úr. Í okkar nánasta ranni er t.d. einstaklingur sem tekist hefur afburða vel með grasflötina sína. Hann gæti hugsanlega opinberað sitt leyndarmál. Ritari veit reyndar að hann þekur flötina með sandi og sáir grasfræi á hverju vori. Ekki tókst betur en svo hjá ritara að fræið fauk út í blómabeðin til mikillar armæðu, en flötin fúl sem áður. Þá langar okkur að fá til okkur svokallaðan garðanörd, en það er einstaklingur sem nánast sefur í garðinum sínum, merkir hverja einustu plöntu og sópar grasflötina á hverjum degi. Hann býr sér einnig til eigin drykki úr garðinum, sápu eða áburð og er fullkomlega sannfærður um eigið ágæti. Í sumar hugsum við okkur að heimsækja garða á Suðurnesjum, þegar þeir eru í blóma, gjarnan undir góðri leiðsögn. En fyrst eru það vorverkin. Hvenær á að byrja og hvað má gera? Ritari vonar að þeir sem ætla að sá fyrir eigin sumarblómum séu farnir að huga að því. Febrúarmánuður er mánuður sumarblómasáningar en mars garðplantanna. Veljið góðan vesturglugga í húsinu, fáið ykkur sáðmold og bakka, vætið moldina vel áður en sáð er og þekið síðan fræin með örlitlu lagi af mold. Það gefst vel að setja síðan bakkann í glæran plastpoka á meðan fræin spíra til að forðast ofþornun. Athugið að sólarljósið í suðurglugga getur verið svo sterkt að plönturnar hreinlega soðna eða verða veiklulegar.

Við erum svo heppin að Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur og fræðslustjóri Garðyrkjufélags Íslands ætlar að hefja fundarröðina með okkur og fjalla um vorverkin. Hann mun beina athyglinni að vörnum við illgresi og óværu á garðplöntum og runnum. Þá tekur hann fyrir grasflötina sem mörgum reynist erfið að viðhalda fallegri, auk þess að fjalla um grundvallaratriði í trjáklippingu. Við eigum von á vörukynningu frá Litlu garðabúðinni sem selur afar skemmtilegan klæðnað  fyrir konurnar í garðinum (Garden Girl) auk almennra ræktunarvara.  Við hvetjum ykkur áhugafólk að koma, því þið takið alltaf eitthvað með ykkur heim og skiljið gjarnan annað eftir hjá okkur hinum til gagns.

Fundurinn verður haldinn í Húsinu okkar (K-húsið) við Hringbraut fimmtudaginn 27. febrúar og hefst kl. 20 að vanda. Aðgangseyrir 500 fyrir alla, léttar veitingar í fundarhléi.


Konráð Lúðvíksson, formaður