Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Vorið er tími breytinga
  • Vorið er tími breytinga
    Hannes Friðriksson
Fimmtudagur 13. mars 2014 kl. 09:10

Vorið er tími breytinga

– Hannes Friðriksson skrifar

Það er tekið að vora. Með hækkandi sól og léttari lund fjölgar tækifærunum  til lagfæringa og breytinga. Mála húsið,  setja niður ný tré,  eða  jafnvel gera eitthvað það  sem engum hafði dottið í hug að væri leyft eða mögulegt. Að brjótast úr viðjum vanans og njóta þess að takast á við nýjar áskoranir.
   
Já, við gætum jafnvel látið okkur detta í hug að senda þaulsetinn meirihluta  í löngu tímabært frí frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Ekki vegna þess að íbúar Reykjanesbæjar hefðu  fengið hópsólsting, heldur vegna þess flest teikn segja að það sé skynsamlegt. Einsleit hugmyndarfræði og foringjadýrkun er ekki góður  grunnur að uppbyggingu heilbrigðs samfélags. Árangur undanfarinna tólf ára staðfesta það.

Engum dylst lengur að þung og erfið úrlausnarefni bíða bæjarins og þar með bæjarstjórnar á næstu árum. Verkefni er krefjast  víðtækrar samstöðu og skilnings  bæjarbúa allra. Um leið og vinna þarf bæjarsjóð  úr djúpu skuldafeni er verkefnið jafnframt að standa vörð um þá þjónustu er nú er veitt, og bæta í eftir því sem unnt er. Tími umkenningarleiksins er liðinn og tímabært að vinna út frá stöðunni eins og hún er.

Framtíðin snýst ekki um endurlífgun gamalla reykfylltra kosningarloforða, og láta sem svo að nú sé tími uppskerunnar kominn. Öllum er ljóst að langt er í land að þeim fræjum sem sáð var í ófrjóa jörð fari að bera þann ávöxt er eftir var sóst. Álverið er ekki að koma í nánustu framtíð.

Framtíðin snýst um að nýta þau tækifæri sem eru hér og nú.  Nýsköpun og uppbygging tengd ferðamannaiðnaði er augljósasti kosturinn um leið og líta á til uppbyggingar starfa tengdum flugþjónustu. Þar liggja flest okkar tækifæri til sköpunar fjölbreyttra starfa.  Okkar styrkur liggur í náttúrulegri legu Keflavíkurflugvallar, og þeirri þjónustu er þvi er samfara. Þar hlýtur  áherslan að liggja þegar  rætt er um atvinnumál.

Samfélög og byggðir dafna í tengslum við staðsetningu og umhverfi  sem er á hverjum stað á hverjum tíma. Það er okkar að velja hvað við viljum og hvernig við hlúum að því. Hvort við veljum reykspúandi iðjuverastefnu eða fjölbreytta atvinnustefnu tengda staðsetningu okkar verður hver að gera upp við sig.  Verkefnið bæjaryfirvalda  verður þó  hið sama. Að skapa samfélag  sem fólk getur verið stolt af.  Öllum hlýtur að vera ljóst að  til þess þurfa talsverðar breytingar að verða.

Með bestu kveðju,

Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024