Vogarnir eiga bjarta framtíð, ef rétt er á haldið
Í síðasta tölublaði Víkurfrétta var vitnað í skýrslu um árshlutauppgjör Sveitarfélagsins Voga. Þar var dregin upp dökk mynd af stöðu bæjarfélagsins. Bæjarfélaginu sem skuldar minnst á íbúa af sveitarfélögunum fimm á Suðurnesjum ef bornir eru saman ársreikningar þeirra fyrir árið 2005, ásamt því að vera með sterka eiginfjárstöðu. Samt eru Vogar fámennasta sveitarfélagið og með næst lægstu tekjur á íbúa samkvæmt ársreikningum 2005.
Skuldir á íbúa í Vogum hafa lækkað úr 670 í 505 þúsund á íbúa á milli áranna 2003-2005 og eignfjárhlutfall hefur hækkað úr 30% í 40% á sama tíma.
Ekki getur þetta flokkast undir slæman árangur á þriggja ára tímabili þar sem vöxtur hefur verið gríðar mikill!
Skýrsluhöfundur er mjög upptekinn af því að reikna húsaleigu næstu 30 ára inn í skuldir bæjarfélagsins. Þetta er gert í tilraun til að sverta stöðu bæjarfélagsins en samkvæmt reikningsskilavenju sem endurskoðandi Voga og margir aðrir endurskoðendur bæjarfélaga styðjast við, þá er getið um skuldbindingar vegna leigusamninga í sérstakri skýringu í ársreikningi.
Ef færa ætti framreiknaða leiguskuldbindingu með skuldum mætti líkja því við að hjón sem keyptu búseturétt í Búmannakerfinu og greiddu 100 þúsund á mánuði í leigu og rekstur íbúðarinnar, skulduðu jafnvirði 30 ára leigu! Hægt er að kaupa eignirnar sem um ræðir til baka og eðlilegt að það sé skoðað á 5 ára fresti hvað sé hagstæðast hverju sinni.
Það kostar mikla peninga að stækka hratt og á meðan á því stendur er reksturinn í járnum. Það hefur aldrei verið leyndarmál.
Árið 2004 var tekin ákvörðun í hreppsnefnd að stefna að 30% fjölgun íbúa vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir húsnæði í Vogum. Þessi ákvörðun kallaði á stækkun grunnskólans og bætta aðstöðu fyrir frístundaskóla og félagsmiðstöð. Það lá ljóst fyrir í upphafi að afla þyrfti fjár til að gera þetta mögulegt. Þrír möguleikar voru í stöðunni. Að selja eignir til fasteignafélags og gera leigusamning til langs tíma, selja hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja eða að taka lán til verksins. Fyrir valinu varð að selja eignir og var það samþykkt samhljóða í hreppsnefnd 11. maí 2004. Samþykkt athugasemdalaust af tveimur af núverandi bæjarstjórnarmönnum E-listans, þ.á.m. oddvita hans. Það er ekkert leyndarmál að það kostar mikla peninga að stækka hratt og á meðan á þeim aðgerðum stendur verður reksturinn í járnum. Mjög erfitt er að áætla rekstrarkostnað nákvæmlega í slíkri stöðu, þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvenær íbúarnir flytja til bæjarfélagsins. Við hraða stækkun þá falla gjöldin vegna hennar til, talsvert löngu áður en tekjur skila sér og mikilvægt að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd en fara ekki á taugum.
Að bera saman rekstur bæjarfélags, fyrri hluta árs og seinni hluta árs, er eins og að bera saman epli og appelsínur.
Það er í raun engin sanngirni í því að skipta rekstri sveitarfélagsins í tvo jafna hluta. Sumarið sem fylgir að mestu seinni hluta ársins er mun léttari í rekstri vegna þess að grunnskólinn, frístundaskólinn og félagsmiðstöðin eru ekki í rekstri. Afborganir lána eru greiddar á seinni hluta ársins vegna þess að tekjurnar eru á þeim hluta, um 20% hærri.
Aukning skulda lýst í mörgum orðum en ekki einu orði minnst á 40 milljón króna eignaaukningu.
Höfundur skýrslunnar sá ástæðu til að greina frá helstu niðurstöðum fremst í henni. Hann greinir frá rekstrarniðurstöðu, veltufé frá rekstri, heildarskuldum og veltufjárhlutfalli. Hann sér ekki ástæðu til að greina frá;
· Eignaaukningu upp á 40 milljónir króna.
· Að 32 milljónir af skammtímaskuldum sé tilkomin vegna óinnheimtra tekna vegna jöfnunarsjóðsframlaga sem koma til greiðslu seinna á árinu.
· 30 milljóna króna gatnagerðagjöldum sem eiga að koma til greiðslu á árinu vegna úthlutunar á iðnaðarlóðum við nær tilbúna götu.
Bæjarfélagið verður fyrir 22 milljóna kr gengistapi vegna þróunar krónunar fyrr á þessu ári og 4% verðbólgu á tímabilinu. Hér er um reiknaða stærð að ræða sem breytist með gengi íslensku krónunnar og skiptir miklu í uppgjörum þeirra sem skulda að hluta eða öllu leiti í erlendum gjaldmiðli. Miklar sveiflur hafa verið á gengi íslensku krónunnar og ekki fyrirséð hver þessi reiknaða stærð verður í lok árs..Erfitt er í upphafi árs að áætla nákvæmlega hver gengisþróunin verður og ef einhver væri þeim hæfileika búinn að vita það nákvæmlega þá yrði hann fljótt ríkur.
Svona til upplýsinga þá lenda öll sveitarfélög á landinu í óvenjumiklu gengistapi og verðbótagreiðslum á þessu ári, ekki bara Vogarnir!
Röng áætlun í skýrslunni um launakostnað
Í skýrslunni kemur fram að launakostnaður hafi farið 24% fram úr áætlun. Þetta er alrangt, inn í áætlunina vantar bókun bæjarráðs frá 2. mars þar sem bæjarráð samþykkir samhljóða, einnig oddviti E-listans, 12 milljón króna auka fjárveitingu vegna hækkunar á starfsmati. Þar að auki eru biðlaun bæjarstjóra að fullu reiknuð inn í uppgjörið, sem að sjálfsögðu var ekki áætlað fyrir í upphafi árs. Ekki getur þetta flokkast undir sanngjarnan samanburð.
Gleymdist að minnast 70 milljón króna tekjur sem fylgja 60 fjölskyldum sem eru að flytja í hús sín á þessu og næsta ári?
Í skýrslunni er kafli um framtíðarþróun! Annað hvort hefur skýrsluhöfundur ekki fengið upplýsingar um að þær 60 íbúðir sem eru í byggingu í Vogum og búið er að selja eða hann hefur gleymt að minnast á þær 70 milljónir í árstekjur sem áætla má að þeim fylgi. Og það sem meira er grunnskólinn og leikskólinn eru tilbúnir til að taka við þeim nemendum sem fjölskyldunum fylgja þannig að stór hluti þess kostnaðar sem fylgir fyrirsjáanlegri fjölgun er þegar kominn inn í rekstur bæjarfélagsins.
H-listinn hefur staðið fyrir einni mestu fjölgun í sögu sveitarfélaga á Íslandi.
Á s.l. 7 árum hefur íbúafjölgunin verið ein sú mesta á landinu eða rúmlega 40%. Framundan er rúmlega 20% fjölgun til viðbótar, þegar flutt verður inn í hús á þeim lóðum sem H-listinn stóð fyrir úthlutun á. E-lista meirihlutinn hefur ekki frá því að hann tók við úthlutað eini einustu lóð undir íbúðabyggingar, þrátt fyrir loforð um aukið framboð lóða til einstaklinga.
H-listinn vissi við síðustu kosningar að reksturinn yrði í járnum á þessu og næsta ári og lofaði því ekki upp í ermina á sér með meiriháttar lækkun á þjónustugjöldum eins og E-listinn gerði.
H-lista fulltrúar í bæjarstjórn hafa alltaf verið vel meðvitaðir um rekstur bæjarins frá einum tíma til annars. Þeir vissu eins og allir sem hefðu nennt að kynna sér ársreikning bæjarins fyrir árið 2005 að miklum vexti fylgdi mikill kostnaður og nauðsynlegt væri að sýna aðhald uns tekjur færu að skila sér í meira mæli. Þetta virðast frambjóðendur E-listans ekki hafa kynnt sér áður en lagt var af stað með kosningaloforð. E-listinn lofaði ábyrgðarlaust fríu fæði í skólanum og frítt í sund fyrir börnin. Svo kennir hann H-listanum um að þörf verði á að skera niður þjónustu næstu ár. Það vakti undrun hvernig frambjóðendur E-listans töluðu í kosningabaráttunni, þar sem þeir virtust helst halda að meginverkefni bæjarstjórnar væri að finna leiðir og aðferðir til að eyða öllum þeim fjármunum sem þeir virtust halda að flæddu í bæjarkassann. Nú eru þeir að vakna upp við það, að rekstur smárra bæjarfélaga í miklum vexti er erfiður og kallar á mikinn tíma og kraft þeirra sem taka slíkt að sér.
E-listinn er upptekinn af því að sverta ímynd bæjarfélagsins sem hann er kosinn til að stjórna.
Árshlutaskýrslan sem E-listinn lét gera er skrípaleikur af verstu gerð til að slá ryki í augu íbúa og sverta ímynd bæjarfélagins sem H-listinn hefur byggt upp á undanförnum árum. Allar upplýsingar sem fram koma i árshlutaskýrslunni lágu fyrir og því er gerð hennar einungis peningaeyðsla hjá E-listanum. Ekki laðar þessi neikvæða umræða nýja íbúa til sveitarfélagsins, er það? E-listanum væri nær að eyða tíma sínum og orku í að halda áfram öflugri uppbyggingu í stað þess að standa í endalausu niðurrifi á því sem áður hefur verið gert. Þeir sem bjóða sig fram til erfiðra ábyrgðastarfa þurfa að axla þá ábyrgð sem fylgir og vera tilbúnir til að eyða bæði tíma og kröftum í að ná árangri. Íbúar í Vogum bíða enn eftir því að sjá hvort núverandi meirihluti hefur kraft til áframhaldandi uppbyggingar bæjarins eða hvort hann ætlar einungis að sitja vælandi yfir því að verkefnið sé erfitt.
Jón Gunnarsson fyrrverandi oddviti H-listans.
Jóhanna Reynisdóttir fyrrverandi bæjarstjóri í Vogum.