Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vogar og sameining sveitarfélaga
Föstudagur 29. september 2017 kl. 06:00

Vogar og sameining sveitarfélaga

Sameining sveitarfélaga hefur fengið byr undir báða vængi á ný. Hér á Suðurnesjum eru töluverðar líkur á því að Sandgerði og Garður sameinist. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ telur jafnframt að það sé einungis tímaspursmál hvenær þessi sveitarfélög sameinist síðan Reykjanesbæ. Þetta er jákvæð þróun sem áhugavert er að fylgjast með.

Mikil tækifæri í sameiningu
Sveitarfélagið Vogar er minnsta sveitarfélagið á Suðurnesjum, þegar horft er á íbúafjöldann. Það er hins vegar stórt landfræðilega. Vogar og Vatnsleysuströnd eiga land að þremur sveitarfélögum en þau eru; Hafnarfjöður, Grindavík og Reykjanesbær. Mikil tækifæri felast í þessu fyrir íbúa Voga og Vatnsleysustrandar, þegar sameining er annars vegar. Sameiningu við Reykjavík ætti heldur ekki að útiloka, enda áhugi borgarinnar á Hvassahrauni þekktur. Almenn ánægja ríkir til dæmis með sameiningu Kjalarness og Reykjavíkur. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að sameining sveitarfélaga hefur margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið. Í krafti stærðarinnar er hægt að veita íbúum betri þjónustu, nýta fjármuni betur og lækka gjöld. Skóla-, íþrótta- og menningarstarf verður fjölbreyttara og öll uppbygging innviða öflugari svo fátt eitt sé nefnt.

Sameining nauðsynleg til að bæta búsetuskilyrði
Undirritaður býr á Vatnsleysuströnd og þekkir vel þá skertu þjónustu sem þar er í boði af hálfu sveitarfélagsins Voga. Á Ströndinni er enginn vatnsveita og þarf hvert heimili að bora fyrir köldu vatni og setja upp dælubúnað. Hitaveita er einungis að hluta en tæplega 40 hús eru án hitaveitu. Frárennslismál eru á ábyrgð hvers heimilis og ekkert eftirlit er með rotþróm. Dæmi eru þess að skólpi sé veitt í gamla vatnsbrunna. Netsamband er lélegt og almenningssamgöngur eru engar. Að ofangreindu má sjá að búsetuskilyrði á Vatnsleysuströnd eru bágborin, þrátt fyrir að vera aðeins í f mínútna fjarlægð frá 1.200 manna sveitarfélagi, Vogum. Víða eru búsetuskilyrðin betri í sumarbústaðalöndum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er samdóma álit íbúa á Vatnsleysuströnd að þeir séu afskiptir í augum bæjaryfirvalda í Vogum. Gott dæmi í þeim efnum er að bæjarstjórn sótti ekki um styrk úr Fjarskiptasjóði til að bæta netsambandið á Ströndinni, sem er brýnt hagsmunamál. Þess má geta að Grindavík fékk nýverið tíu milljónir úr sjóðnum til að ljósleiðavæða Þórkötlustaðarhverfið, sem er dreifbýli eins og Vatnsleysuströndin. Víða um land standa nú yfir framkvæmdir við lagningu ljósleiðara í dreifbýli. Framkvæmdir sem eru að stórum hluta fjármagnaðar af ríkissjóði í gegnum Fjarskiptasjóð.

Um árabil hefur athygli bæjarstjórnar verið vakin á nauðsyn þess að bæta búsetuskilyrðin á Ströndinni. Áskoranir hafa verið afhentar bæjarstjóra og staðið hefur verið fyrir undirskriftarsöfnunum. Því miður hefur það engan árangur borið. Uppbygging á Vatnsleysuströnd er því skiljanlega lítil sem enginn. Uppbygging í ferðaþjónustu hefur til dæmis mætt litlum áhuga hjá byggingayfirvöldum og eru dæmi þess að afgreiðsla byggingaleyfis hafi tekið tæp tvö ár og einkennst af óvandaðri stjórnsýslu. Á sama tíma ræða bæjarfulltrúarnir um þau miklu tækifæri sem Vatnsleysuströndin býður upp á.

Tilfinningar og sérhagsmunir mega ekki ráða för
Bæjarfulltrúar eru kjörnir af íbúunum og starfa í þeirra þágu. Þeir eiga stöðugt að leita leiða til þess að bæta búsetuskilyrðin og verða að hugsa út fyrir kassann í þeim efnum.  Sameining er mikilvægur möguleiki sem ekki má horfa fram hjá. Tilfinningar og sérhagsmunir mega ekki blinda mönnum sýn í þessum efnum. Nýta ætti tímann í haust og vetur til að fara í könnunarviðræður við nágrannasveitarfélögin um sameiningu og kynna niðurstöðuna í kjölfarið fyrir íbúunum. Samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor væri síðan hægt að kjósa um við hvaða sveitarfélag skuli hefja formlegar sameiningarviðræður. Þannig geta íbúarnir haft lýðræðislega aðkomu að málinu frá upphafi.

Sveitarfélagið Vogar er eins og áður segir fámennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum, öll rök mæla með því að sameinast stærra og öflugra sveitarfélagi. Sameining stuðlar að betri  þjónustu við íbúanna, betri nýtingu fjármuna, bættum búsetuskilyrðum og bættri stjórnsýslu.

Birgir Þórarinsson