Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 6. september 2004 kl. 17:58

Vodka kúrinn-skemmtileg sýning

Langflest okkar hafa farið í megrun eða þekkja einhvern sem hefur farið í
megrun. Við könnumst því við erfiðleikana sem því fylgir og þeirri andlegu
baráttu sem slíkt átak kallar á. Sem betur fer má líka sjá ýmsar spaugilegar
hliðar á þessum málum og það gerir hún Kristlaug María Sigurðardóttir svo
sannarlega í nýjasta leikriti sýnu; Vodkakúrnum, sem þessa dagana er sýnt í
Frumleikhúsinu. Undirritaður átti þess að kost að sjá leikritið á Ljósanótt
og skemmti sér konunglega. Öll hlutverk leikritsins eru í höndum þeirra
Helgu Brögu Jónsdóttur og Steins Ármanns Magnússonar og fara þau beinlínis á
kostum í frábærum gamanleik. Helga Braga leikur háskólamenntaða
deildarstjórann og bankastarfsmanninn Eyju, sem finnst hún vera of feit, en
Steinn Ármann leikur margar persónur. Hann er ýmist vinur Eyju, sem hefur
meiri áhuga á gröfunum sínum en henni,  lýtalæknirinn, einkaþjálfarinn,
systir Eyju eða bróðir og fer snilldarlega með þau öll. Leikmynd og búningar
eru í höndum Elínar Eddu Árnadóttur og lýsingu annast Björn Bergsteinsson.
Leikstjóri er Gunnar Ingi Gunnarsson.

Þeir sem vilja fara í leikhús til þess að hlægja ættu að skella sér á
Vodkakúrinn því þar er dregin upp spaugileg mynd af einhverju sem mikið
hefur verið í umræðunni og margir kannast við á einn eða annan hátt.
Aðstandendum sýningarinnar óska ég innilega til hamingju og þakka kærlega
fyrir mig. Um leið skora ég á Suðurnesjamenn að fara og sjá þessa sýningu á
meðan hún er á fjölunum í Frumleikhúsinu því hún er svo sannarlega þess
virði.

Kjartan Már Kjartansson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024