Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Virkni allra er mikilvæg
Föstudagur 12. apríl 2013 kl. 09:48

Virkni allra er mikilvæg


Þegar kemur að hverskonar samfélagslegri aðstoð, við barn, fullorðinn, aldraðan eða fatlaðan á enginn að lenda utangarðs. Ekki á að skipta máli hvort vandinn heitir krabbamein, lömun eða atvinnuleysi. Virkni er mikilvæg fyrir alla. Þátttaka í uppbyggingu Íslands er á ábyrgð okkar allra. Þar er enginn undanskilinn, fatlaður eða ófatlaður. Vannýttur auður er ekki síst falinn í fólki sem í dag fær ekki tækifæri til að vera virkt í daglegum störfum. Veitum fólki aðstoð til að vera virkir þátttakendur og þannig tryggjum við lífsgæði þeirra og það mikilvægasta í lífinu, mannréttindi. Skiptir þá engu hvort viðkomandi er fatlaður, ófatlaður eða atvinnulaus. Þá er mikilvægt að stórauka endurhæfingu fólks eftir sjúkdóma og slys til að tryggja virkni.

Finnum lausnir á búsetu fólks eftir hæfni og aðstoðum fólk til að búa heima eins lengi og hægt er. Þeir sem af eigin raun geta nýtt sér aðstoðarmannakerfi eins og notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) fái tækifæri til þess. Verndaðir vinnustaðir eru barn síns tíma og til þess fallnir að aðgreina hópa. Þeir sem í dag eru á vernduðum vinnustað eiga eins og kostur er að vera á meðal starfsmanna á hefðbundnum vinnustöðum og veitt aðstoð þar eftir þörfum.

Sama á að gilda um atvinnuleitendur, þeim verði fundinn farvegur til náms eða starfa og reglan verði að enginn fái greitt fyrir að sitja heima. Atvinnuleysi er böl sem verður að útrýma. Næg verkefnin eru fyrir höndum, t.d. hjá bæjarfélögum, ríki og velferðarstofnunum sem hægt er að vinna að.

Mannleg reisn felst í því að hver og einn geti með stolti unnið sér og fjölskyldu sinni farborða með því að stunda ærlegt starf. Söndum saman um virkni allra þegna samfélagsins. Með því má koma í veg fyrir margskonar félagsleg vandamál, svarta atvinnustarfsemi og önnur óæskileg vandamál sem fylgja því að lenda utangarðs í þjóðfélaginu. Tökum heiðarlega umræðu um þessi mál og finnum á þeim farsæla lausn. Ég vil vinna að virkni allra á mannlegum nótum.

Ásmundur Friðriksson
skipar 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024