Virkjum lýðræðið og kjósum um hjúkrunarheimilið
Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði og Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ gera atvinnumál á hér á Suðurnesjum að umtalsefni í tveimur greinum á Víkurfréttum í síðustu viku . Aðalinntak greinanna eru meintar draumfarir fjármálaráðherra, um leið og þeir kvarta sáran yfir að forsætisráðherra haldi sig við raunveruleikann og telji ekki rétt að reiða sig lengur á að draumurinn um álver í Helguvík verði að veruleika á næstu mánuðum . Því til grundvallar er forsætisráðherrann að vísa til deilna HS Orku og Norðuráls um bæði magn og verð þeirrar raforku sem þarf til. Þess vegna er verkefnið stopp.
Stöðug aukning starfa
Þeir ræða um mikilvægi starfa, um leið og þeir rekja fjölda þeirra ársverka sem myndu skapast við byggingu álversins. Sá fjöldi starfa sýnist mér nú vera farinn að slaga upp í þá tölu verkamanna sem þurfti til við að byggja Versali á sínum tíma. Þar notuðust menn þó við skóflur haka og burðarbretti . En það er annað mál og því sem hér um ræðir algerlega óviðkomandi.
Hvers vegna gilda ekki sömu rök um Flugstöðina og Hjúkrunarheimilið?
Greinar þeirra bæjarstjóranna eru í mínum huga þó gott innlegg í umræðuna ef litið er framhjá draumfarahlutanum og umkenningarleiknum sem þeir virðast enn fastir í. Þar ber sérstaklega að nefna þann hluta er fjallar um tengingu upphæða verkefna og þeirra starfa sem af hljótast. Undir seinni greinina skrifa eingöngu bæjarstjórinn í Garði þar sem sá hluti er nánar útskýrður. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ gerir það ekki væntanlega í ljósi þeirra samninga sem hann reynir nú að knýja í gegn í sambandi við við fyrirhugað Hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ.
Andvirði samninganna við Nesvelli er sagður vera 730. milljónir króna sem jafngildir því 165 árstörfum væri öll upphæðin nýtt til byggingar nýs hjúkrunarheimils . Í þem samningsdrögum sem nú er reynt að knýja í gegn og tekst væntanlega er reiknað með að kostnaður til kaupa húsnæðis til breytinga verði um það bil 430 milljónir. Eftir standa því 300 milljónir til framkvæmda , og 75 ársstörf á framkvæmdatímanum.
Eftir lestur beggja greina þeirra félaga situr í mínum huga eftir tvær spurningar . Hversvegna nýtir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ ekki þau rök sem bæjarstjórinn í Garði leggur upp með? Hversvegna gilda önnur rök um atvinnukapandi verkefni á vegum ríkisins við Flugstöðina, en þau verkefni sem Reykjanesbær stendur fyrir. Fari bæjarstjórinn í Reykjanesbæ þá leið sem bæjarstjórinn í Garði leggur upp með er ljóst að Reykjnesbær gæti nú fyrir fé ríkisins nú þegar skapað 165 ársstörf við byggingu hjúkrunarheimilis, eða 45 fleiri árstörf en í Kísilmálmverksmiðjunni verða , auk þeirra starfa sem skapast til framtíðar litið. Já sitthvað eru orð, eða efndir.
Kjósum um hjúkrunarheimilið
Málefni hjúkrunarheimilisins eru því miður að verða að enn einni deilunni um keisarans skegg. Þar sem aðalatriðið gleymist. Hver er vilji bæjarbúa, og hvernig við viljum haga málefnum aldraðara til langrar framtíðar. Hvap er bænum fyrir bestu . Það er ljóst að þeir sem kjörnir hafa verið til að gæta hagsmuna bæjarbúa eru í vandræðum. Þeir eru ósammála um hvora leiðina skuli fara. Hvort byggja eigi nýtt eða breyta Nesvöllum . Þá er komin til að virkja lýðræðið, og senda þeim skilaboð um hver vilji bæjarbúa í þessu máli er. Um það þarf að kjósa. Tækifærið er fyrir hendi um leið og kosningar vegna Icesave samninganna fara fram þann 9.apríl. Það tækifæri ættu menn að nýta, og fá fram hver vilji bæjarbúa er í málinu. Á slíka niðurstöðu ættu allir að geta sæst. Fyrr liggur ekki fyrir hver eindreginn vilji bæjarbúa er í þessu máli. Látum þá ákvörðun sem tekinn verður vera óumdeilanlega.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson