Vinnum áfram að fjölbreyttu atvinnulífi
Magnea Guðmundsdóttir skrifar.
Í Reykjanesbæ býr dugmikið og gott fólk. Hér er fjölbreytt atvinnulíf sem treystir stoðir samfélagsins og er eitt af okkar mikilvægustu verkefnum.
Ferðaþjónustan
Ferðaþjónustan er nú orðin okkar stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein og hefur vöxtur hennar verið mikill undanfarin ár. Í raun hefur ferðaþjónustan vaxið hraðar en gert var ráð fyrir. Efnahagslegra áhrifa greinarinnar gætir víða í samfélagi okkar m.a. þar sem störfum í kringum flugtengda þjónustu hefur fjölgað mjög mikið.
Skipulag í takt við þróun atvinnulífsins
Í nýju deiliskipulagi fyrir Berg og Gróf er tekið mið af þróun svæðisins þar sem íbúabyggð, útivist og gisting fer saman. Skýr sýn á skipulag til framtíðar er mikilvæg fyrir frekari þróun ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar. Reykjanesbær er ákjósanleg staðsetning fyrir ferskvinnslu sjávarafurða og hugað verður að skipulagi fyrir slíka starfsemi á svæðum við hafnir Reykjanesbæjar svo ný fyrirtæki geti byggt upp starfsemi sína í samræmi við kröfur nútímans.
Frumkvöðlar – nýtum auðlindirnar
Frumkvöðlar eru hluti af öllum þáttum atvinnulífsins. Stærsta frumkvöðlasetur Íslands er staðsett á Ásbrú í Reykjanesbæ þar sem fjölmörg ný störf hafa orðið til. Nú þegar má sjá þar blómlega starfsemi t.d. hjá Keili, hönnunarfyrirtækjum og hátæknifyrirtækinu Algalíf sem nýlega hóf starfsemi í Reykjanesbæ. Í auðlindagarðinum á Reykjanesi má finna einstök dæmi um fullnýtingu jarðvarmans. Orkan á Reykjanesi nýtist t.d. í fiskeldi Stolt Seafarm sem nýlega hóf starfsemi á Reykjanesi, en þar starfa nú þegar 15 starfsmenn og mun þeim fjölga á næstunni.
Helguvík
Í Helguvík hefur verið lagður grunnur að því að treysta atvinnulíf íbúa Reykjanesbæjar. Nú þegar eru fjölbreytt atvinnuverkefni í undirbúningi: álver, kísilver, vatnsútflutningur og grænir iðnaðargarðar. Vinna þarf ötullega að framgangi þessara verkefna og treysta þannig efnahagslegar undirstöður íbúa Reykjanesbæjar. Með því að leggja grunn að fleiri atvinnutækifærum stuðlum við að meiri tekjum fyrir íbúa og sveitarfélagið.
Eina örugga leiðin til að tryggja áherslu á atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ og tryggja framgang þessara verkefna er með því að kjósa áframhaldandi forystu Sjálfstæðisflokksins og setja X við D.
Magnea Guðmundsdóttir
bæjarfulltrúi og frambjóðandi D-lista Sjálfstæðisflokksins