Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vindrósin frá Helguvík mun feykja eiturþyrnum yfir íbúa Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 24. janúar 2019 kl. 13:00

Vindrósin frá Helguvík mun feykja eiturþyrnum yfir íbúa Reykjanesbæjar

Vindrósirnar sem gerðar hafa verið vegna kísilvers Arion banka (Stakksberg ehf.) í Helguvík og lagðar eru til grundvallar fyrir útreikninga á eiturefnadreifingu frá verksmiðjunni segja okkur ljóta sögu um framvindu loftgæða í bæjarfélaginu. Hún sýnir að ríkjandi vindáttir í Helguvík eru norðnorðaustlægar, en rósin (efst í hægra horninu) sýnir einnig að vindhraðinn er ekkert sérlega mikill í þessum áttum. Samkvæmt skilgreiningu Veðurstofu Íslands er vindur í Reykjanesbæ mjög eða fremur hægur (þ.e. innan við 10 metrar á sekúndu) í átta af hverjum tíu dögum ársins.

Hvað gerist í norðnorðaustanátt?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meiningin er að leyft verði að hleypa út í andrúmsloftið u.þ.b. sex tonnum af banvænu eitri dag og nótt um ókomin ár. Íbúarnir í norðurhluta bæjarins fundu vel fyrir þessum eituráhrifum sumarið 2017 (þeir sem búa innan gulu línunar á myndinni). Þegar veðrið verður best, þ.e. þegar heiðríkt er í hægri norðanátt, mun eitrið svífa yfir bæinn. Eiturmagnið verður mest í andrúmsloftinu á góðviðrisdögum þegar íbúarnir vilja helst vera úti við, í leik og starfi. Það mun læðast inn um opna svefnherbergisglugga við sumarandvarann í miðnætursólinni. Ungabörnin sem hefð er fyrir að fái síðdegisblundinn sinn úti í barnavagni verða varnarlaus fyrir eiturþyrnunum. Í skjólátt frá golunni, við húsveggi sem snúa í suður og á sólpöllum þar sem settir hafa verið skjólveggir fyrir norðanáttinni, þ.e. allstaðar þar sem skjólsælt er á sólríkum dögum, munu eiturefnin staldra við eins og skafrenningssnjókornin stöðvast hlémegin í mishæðóttu landslagi. Sóldýrkendur munu fá sína sólbrúnku á húðina en verða sótsvartir í öndunarveginum og hóstandi af eitraða kolarykinu.

Mynd segir meira en þúsund orð

Meðfylgjandi mynd er samsett úr tveim myndum, fengnum úr skýrslu Purenviro.com Purenviro 2018. TVOC emission dispersion modelling. 15. janúar 2018 (REP-P312-B-1). Skýrslan fjallar um öll rokgjörn lífræn efnasambönd (TVOC) og líklega dreifingu þeirra frá kísilmálmverksmiðju Arion banka í Helguvík. Gera verður ráð fyrir að þar séu meðtalin eiturefnin sem verða í mestu magni, þ.e. brennisteinsdíoxíð (SO2) og köfnunarefnisoxíð (NOx). Mest mun eitrið feykjast yfir norðurhluta Reykjanesbæjar, stundum yfir golfvöllinn og jafnvel út í Garð‚ stundum út á Faxaflóa‚ en oftast af þessum þrem svæðum yfir íbúa Reykjanesbæjar. Vindrósin sýnir það glögglega.

Skrifum undir áskorun um íbúakosningu

Til að fá vissu fyrir því að bindandi íbúakosning um kísilverin fari fram í Reykjanesbæ vantar fleiri undirskriftir. Bæjaryfirvöld þurfa að fá vissu fyrir hvort meirihluti íbúa verði sáttur við að fá eiturefnin frá kísilverksmiðjum yfir sig um ókomin ár.  Upplýsingar um undirskriftasöfnunina er á Facebook, „Andstæðingar stóriðju í Helguvík. Því fleiri sem skrifa undir áskorunina því meiri stuðning hafa bæjarfulltrúar að standa við stóru orðin um að hafna mengandi stóriðju í Helguvík og vera ávallt í sátt við íbúa.

Reykjanesbæ 21. jan. 2019

Tómas Láruson.