Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Viltu skerta þjónustu?
Fimmtudagur 15. maí 2014 kl. 09:12

Viltu skerta þjónustu?

Ég hef tekið eftir því í umræðu manna á Facebook og í greinarskrifum að frambjóðendur annarra flokka og helstu stuðningsmenn þeirra eru mjög uppteknir af einu máli og eiginlega bara einu máli, skuldastöðu bæjarins. Það verður að segjast að sumir hafa farið alveg framúr sjálfum sér í málflutningi. Verum málefnaleg gott fólk!

Málflutning sinn byggja þeir í raun bara á einni fjármálaformúlu, þ.e. skuldahlutfalli, sem hentar rosalega vel því hún reiknar saman allar framtíðarleigugreiðslur Reykjanesbæjar, sem greiddar verða til okkar eigin félags, Fasteignar, á næstu 25 árum og flokkaðar eru sem skuld. Þessar leiguskuldir eru 57% af heildarskuldum Reykjanesbæjar Ekki gleyma því að Fasteign er í 80% eigu Reykjanesbæjar.

Út frá þessu byggja menn síðan greinaskrifaflóð sitt og upphrópanir sínar á Facebook – og það er skotið fast – ekki síst á Árna bæjarstjóra! En er innistæða fyrir þessum skotum?

Fyrir þá sem ekki vita er skuldahlutfall fundið út með því að deila heildarskuldum með tekjum Að sjálfsögðu draga stjórnarandstæðingar fram þessa stærð umfram aðrar fjármálaformúlur. Kennitalan er ágætur mælikvarði en alls ekki gallalaus. Hún segir t.d. ekkert til um hvort sveitarfélagið ráði við að greiða af lánum sínum eða ekki. Hún segir ekkert til um hvort sveitarfélagið sé vel rekið með jákvæðri afkomu eða framlegð og ekkert til um hvort um hagsýnan rekstur sé að ræða eða ekki. Einnig segir hún ekkert til um eignastöðu en þess ber að geta að Reykjanesbær er eitt eignamesta sveitarfélag landsins og eigið fé bæjarsjóðs er sterkt. Við mat á rekstri fyrirtækja eða sveitarfélaga er mikilvægt að horfa á heildarmyndina en ekki einn afmarkaðan þátt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á að skera niður í grunnþjónustunni eða fækka starfsmönnum bæjarins?
Út frá þessari fjármálaformúlu virðast mörg framboð hafa myndað sér skoðun á framtíðarsýn fyrir Reykjanesbæ. Stefnuskráin er einföld. Nú skal skera niður og það mikið, til að greiða niður þessar rosalegu skuldir – enn og aftur – sem við skuldum í framtíðarleigu til Fasteignar, sem er í okkar eigu!

Hver ætlar að sjá um niðurskurðinn? Jú, flokkarnir virðast ætla að ráða „faglegan“ embættismann til að sjá um niðurskurðinn. Það er reyndar mjög sniðugt að ráða embættismann með breitt bak til að fela sig á bakvið við niðurskurð. En hvað felst í niðurskurðinum?

Laun og launatengd gjöld eru um 47% af gjöldum Reykjanesbæjar. Hinn helmingurinn af gjöldunum eru kaup á vörum og þjónustu eða stuðningur og framlög (samkvæmt ársreikningi).

Við erum því að tala um að „hagræðingin“ sem er fínt orð yfir niðurskurð felst í því að leggja af eða skerða þjónustu sem ekki er lögbundin verkefni sveitarfélaga, s.s. íþrótta- og tómstundastarf barna, umönnunargreiðslur, niðurgreiðslur dagmæðra o.s.frv. Nema ef hugmyndin er að fækka starfsmönnum verulega. Flestir af 800 starfsmönnum bæjarins starfa í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar. Er ætlunin þá að sameina skóla og fækka starfsfólki í leiðinni. Ég bara spyr? Ekkert framboð hefur komið með beinar tillögur um niðurskurð sem þau ætla í sem munar einhverjum fjárhæðum. Ég kalla eftir því að flokkarnir geri grein fyrir þessu fyrir kosningar  – en feli sig ekki á bakvið það að ætla að ráða „faglegan“ bæjarstjóra eftir kosningar sem á að sjá um þetta.

Við erum á réttri leið
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hafa sveitarfélög næstu 8 ár til að ná skuldahlutfallinu niður í 150%. Áætlanir Reykjanesbæjar sem unnið hefur verið eftir á kjörtímabilinu eru að skila því að búið er að lækka skuldir verulega undanfarin ár. Áætlanir gera ráð fyrir því að ná þessu viðmiði á næstu 6 árum. Auðvitað er hægt að setja markmið um að ná þessu á 3-4 árum en það verður ekki gert án þess að stórskerða þjónustu bæjarins við íbúa.

Við Sjálfstæðismenn viljum frekar halda uppi þjónustustiginu og ná þessu marki á lengra tímabili enda ekkert sem kallar á annað. Sveitarfélag á að veita íbúum þjónustu. Það er þess meginhlutverk. Í erfiðu árferði og háu atvinnuleysi, eins og verið hefur á síðustu árum, er það hlutverk enn mikilvægara.

Við búum í frábæru og mannúðlegu samfélagi, sem styður við sinn minnsta bróður og við styðjum hvert annað!

Við skulum ekki breyta okkur í fjármálaformúlu bæjarfélag – styðjum áfram mannúðlegan og öflugan Reykjanesbæ.
Setjum X við D!

Þórarinn Gunnarsson
Formaður Ungra Sjálfstæðismanna
og frambjóððandi D-lista sjálfstæðismanna