Vilt þú verða heimsóknavinur Rauða krossins?
Heimsóknavinir eru eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins, og um land allt fær fjöldi fólks heimsóknavin frá Rauða krossinum til sín. Í Reykjanesbæ hafa heimsóknavinir verið starfandi um langt árabil, og nú vill deildin efla verkefnið og auglýsir því eftir sjálfboðaliðum til starfa.
Margir íbúar á starfssvæði deildarinnar bíða eftir að fá heimsóknavin til sín, en eflaust eru ennþá fleiri sem vilja gjarnan fá heimsóknir en hafa ekki leitað eftir því. Það væri því gaman ef hægt væri að fjölga í báðum hópum. Heimsóknavinir geta verið konur og karlar á öllum aldri, og einnig þeir gestgjafar sem fá heimsóknina. Þeir sem áhuga hafa á að fá heimsóknavin geta haft samband við deildina.
Hlutverk heimsóknavina er að veita góðan félagsskap, nærveru og hlýju. Það fer svolítið eftir áhugamálum og aðstæðum þess sem heimsóttur er, hvernig gestgjafi og heimsóknavinur verja tímanum saman. Yfirleitt eru þetta vikulegar heimsóknir, klukkustund í senn, en geta verið sjaldnar, ef það hentar betur.
Heimsóknir eru yfirleitt á heimili fólks, dvalarheimili eða sambýli. Heimsóknavinur þarf að hafa gaman af því að umgangast fólk, vera traustur og áreiðanlegur og hafa vilja til að láta gott af sér leiða. Allir heimsóknavinir þurfa að sækja undirbúningsnámskeið áður en þeir hefja heimsóknir.
Suðurnesjadeild Rauða krossins mun á næstunni halda námskeið fyrir heimsóknavini. Námskeiðið verður haldið í húsnæði deildarinnar, að Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ miðvikudaginn 1. febrúar og hefst kl. 20:00. Nánari upplýsingar og skráning er í síma 420 4700 eða á heimasíðu Rauða krossins www.raudikrossinn.is Heimsóknavinum bjóðast síðan ýmiss gagnleg námskeið t.d. í skyndihjálp og sálrænum stuðningi.
RKÍ Suðurnesjadeild
Sími 420-4700, 896-0433
[email protected]