Villandi frétt um Bláa Lónið í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins
Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var lesin frétt um affallslón orkuvers HS Orku í Svartsengi og Bláa Lónið sem valdið hefur misskilningi hjá almenningi, að því að fram kemur í tilkynningu frá Bláa Lóninu. Fréttin er byggð á viðtali við Guðna Jóhannesson, orkumálastjóra, sem tekið var við hann á RÚV í morgun.
Í tilkynningu Bláa Lónsins segir: „Af fréttinni mátti ráða að Bláa Lónið sem nú er samheiti yfir starfsemi baðstaðar Bláa Lónsins hf og vörumerki fyrirtækisins ógnaði mannvirkjum og náttúru í Svartsengi.
Hið rétta er að baðstaður, lækningalind og hráefnavinnsla Bláa Lónsins í Svartsengi nýtir 35 sekúndulítra eða 8% þess jarðsjávar sem dælt er uppúr jarðhitageymi svæðisins á ársgrunni. 92% þess jarðsjávar sem dælt er upp er nýttur til orkuframleiðslu orkuversins.
Bláa Lónið hf hefur í samvinnu við HS Orku látið gera affallsholu sem er staðsett stutt frá lækningalind félagsins. Í affallsholuna streyma 35-40 sekúndulítrar af lónvökva. Holan veitir lónvökvanum blönduðum til helminga með ferskvatni niður í sjávarfyllt berglög. Yfirborð sameiginlegs affallslóns HS Orku og Bláa Lónsins í Svartsengi hefur í áranna rás verið að stækka því kísl sem fellur úr vökvanum þéttir farveg lónvökvans og hann því stöðugt leitað nýrra niðurfalla. Vegna tímabundinna tæknilegra örðugleika og bilana í tækjabúnaði orkuversins sem leiddi af sér tímabundna aukna upptöku jarðhitavökva hækkaði vökvaborð affallslónsins meira en æskilegt getur talist. Eins og forráðamenn HS Orku hafa skýrt frá í fjölmiðlum er verið að vinna að frekari lausnum til niðurdælingar jarðhitavökvans til að halda vökvaborði affallslónsins réttu og stöðugu og koma þar með í veg fyrir óeðlilega hækkun þess í framtíðinni“.