Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Viku síðar
  • Viku síðar
Föstudagur 30. maí 2014 kl. 08:44

Viku síðar

– Styrmir Barkarson skrifar.

Undanfarna mánuði hef ég ritað greinar um málefni bæjarins og birt á vefsíðu minni. Ég hef ritað um það sem mér finnst miður fara í stjórnsýslu Reykjanesbæjar en gætt þess að afla heimilda og halda mig við málefnin og þá embættismenn sem bera ábyrgðina. Ávallt í tengslum við gjörðir þeirra en ekki persónu.

Ég átti auðvitað von á að skrif mín yrðu gagnrýnd en ekki var ég búinn undir að verða fyrir jafn grófu persónuníði og birtist í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Þar var ég nafngreindur sem rætinn níðpenni, nettröll og sagður beita ógeðfelldum aðferðum eineltis án þess að greinarhöfundur nefndi nokkur dæmi því til stuðnings, og það í sömu grein og fjallaði um mikilvægi málefnalegrar umræðu og aðgátar í nærveru sálar.

Greinarhöfundur og ég höfum starfað í sama skóla um nokkurt skeið og höfum ávallt umgengist hvort annað af fagmennsku og kurteisi. Ég þekki hana ekki af öðru en góðu og því komu skrif hennar mér mjög á óvart. En sérstaklega, sökum sameiginlegs starfsvettvangs okkar, sárnar mér mjög að hún skuli vega að starfsheiðri mínum með því að blanda kennslustörfum mínum í umræðuna og tortryggja starf mitt með nemendum.

Ég á að baki 10 ára farsælan kennsluferil í Reykjanesbæ og er stoltur af starfi mínu. Ég kenni tónmennt og stjórna kór auk þess sem ég hef verið umsjónarkennari og verð aftur á næsta skólaári. Ég hef byggt upp jákvætt foreldrasamstarf og traust tengsl við nemendur og hef á undanförnum árum gefið af starfi mínu til samfélagsins með því að ferðast til dæmis með kóra á elliheimili og sjúkrahús að gleðja fólk með tónlist.

Ég vinn ekki bara sem kennari. Ég er kennari, vakinn og sofinn. Ég geng langtum lengra en skyldan býður fyrir nemendur mína, hvort sem það er að gefa þeim frítíma minn í námsaðstoð, heimsækja heimili þeirra þegar þess er þörf eða þá að eyða matarhléinu með þeim sem vantar stundum bara einhvern til að tala við. Ég hef verið til staðar fyrir nemendur á þungbærum jafnt sem hamingjuríkum stundum, svarað í símann á nóttunni, ekið landshluta á milli og mætt á íþróttaleiki og tónleika. Hagur og vellíðan barnanna sem ég kenni er mitt leiðarljós.

Bærinn minn skiptir mig líka miklu máli. Ég trúi á mátt einstaklingsins til að byggja upp betra samfélag og hef ávallt reynt að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég skrifa um samfélagsleg vandamál, til dæmis fátækt, húsnæðisvanda eða misbeitingu valds og er með því ekki að tala bæinn okkar niður. Þvert á móti er ég að draga upp á yfirborðið það sem við verðum að geta horfst í augu við til að eiga möguleika á að bæta úr því.

Of lengi hefur gagnrýnin umræða verið þögguð niður í bænum okkar með úthrópunum um neikvæðni og niðurrifsstarfsemi. Nú eru breytingar í lofti og með það í huga geng ég glaður til kosninga á laugardaginn og set X við nýja tíma.

Styrmir Barkarson
styrmirbar.wordpress.com

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024