Víg, virðing, von og Viðreisn
- Aðsend grein frá Jóhannesi A. Kristbjörnssyni
Á laugardag kjósa Íslendingar þá stjórnmálaflokka sem þeir telja líklegasta til að geta leitt þjóðina; efnahagslega, félagslega og siðferðislega. Ég er þátttakandi í kosningabaráttunni og eru það fyrstu raunverulegu afskipti mín af pólitísku starfi.
Mikill fjöldi framboða er merki um óánægju með þá flokka sem lengst hafa farið með völd í landinu. Óánægju með frammistöðu þeirra, gildismat og hegðun fulltrúa þeirra.
Skoðanakannanir sýna að kjósendur eru bæði dreifðir á mörg framboð og hátt hlutfall þeirra eru óákveðnir. Fulltrúar allra flokka hafa í fjölmiðlum kynnt stefnu þeirra. Nokkuð ber á að frambjóðendum reynist erfitt að halda aftur af loforðaflaumnum enda veruleg þörf fyrir úrbætur á fjölmörgum sviðum.
Þessa síðustu daga hafa bæði frambjóðendur og ákafir stuðningsmenn nokkurra stjórnmálaflokka boðið upp á þann leik í hefðbundnum fjölmiðlum, í netfjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að bera fram hræðsluáróður. Hann felst í því að gera lítið úr getu einstakra frambjóðenda, kasta fram mýtum um eðli stjórnmálaflokka, jafnvel gera nöfn og útlit sumra frambjóðenda að aðhlátursefni. Með þessu haga flokkarnir og stuðningsmenn þeirra sér eins og bullurnar á skólalóðum fortíðarinnar.
Í leik þessum gleymist að Alþingi nýtur mjög lítillar virðingar hjá almenningi einmitt vegna þess hve barnalega barist er á banaspjótum í ræðustól þingsins. Telji vonbiðlar þingsæta, bakhjarlar og stuðningsmenn þeirra að hræðsluvíg kosningabaráttunnar vinni þá virðingu aftur, sem Alþingi er nauðsynleg, skjátlast þeim hrapallega. Kjósendur eru hvorki auðblekkt hjörð né auðveldlega hræddir til hlýðni.
Í mínum augum snúast Alþingiskosningarnar 2016 um framtíðina, að skilja þá eftir í fortíðinni sem ýmist ekki sjá þörfina fyrir breytingar á mörgum grunnþáttum samfélagsins eða hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi. Ég hvet kjósendur til að nýta sér kosningarétt sinn og veita þeim framboðum sem boða breytingar atkvæði sitt. Kjósa þá sem trúverðugir eru um þá grundvallarhugsun að láta almannahagsmuni framtíðar ganga framar sérhagsmunapólitík fortíðar.
Jóhannes A. Kristbjörnsson, 2. sæti á lista Viðreisnar