Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við tímamót
Guðbrandur Einarsson, fráfarandi formaður og framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Föstudagur 29. mars 2019 kl. 05:00

Við tímamót

-Kveðja frá formanni VS

Þegar Jóhann Geirdal, þáverandi formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, afhenti mér lyklana af húsakynnum félagsins sagði hann við mig að ég ætti eftir opna dyr félagsins ansi oft í framhaldinu. Ekki óraði mig fyrir því þá, að ég ætti eftir að gera það í 21 ár eða u.þ.b. fimm þúsund sinnum.

Tímamót
Nú er hins vegar komið að tímamótum í starfi félagsins. Félagsmenn hafa nú tekið ákvörðun um að félagið verði sameinað VR og mun sú sameining taka gildi þann 1. apríl næstkomandi. VS, sem hefði orðið 65 ára á þessu ári, hefur á þessum tíma verið stór þátttakandi í ýmsum mikilvægum framfaraskrefum fyrir íslenskt launafólk og íslenskt samfélag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég hef fengið að vera með í þessum breytingum í rúma tvo áratugi og séð ýmislegt gerast sem hægt er gleðjast yfir. Það að stofna starfsmenntasjóði árið 2000 hefur aukið möguleika íslensks launafólks til að afla sér menntunar sem þeir hafa svo sannarlega nýtt sér.

Krafan um framlag til starfsendurhæfingar gerði það að verkum að „Virk starfsendurhæfingarsjóður“ varð til og styður við þúsundir einstaklinga á hverju ári. Þá er rétt að minnast á að það voru stéttarfélögin sem kröfðust þess í kjarasamningunum 2015 að fá stofnstyrki til byggingar íbúða fyrir tekjulága félagsmenn. Það leiddi til stofnunar „Bjargs íbúðafélags“ sem hefur nú þegar hafið byggingu á hundruðum íbúða fyrir þennan hóp. Mikilvægi stéttarfélaga er því ótvírætt þótt þess sjái ekki alltaf stað frá degi til dags.

Fækkun stéttarfélaga
Stéttarfélögum hefur farið fækkandi á undanförnum árum, rétt eins og sveitarfélögum. Umræða um sameiningu VS og VR hófst fyrst árið 2007 en var sett til hliðar þegar þáverandi formaður VR fór frá. Þessi sameining mun til lengri tíma hafa jákvæð áhrif á bæði félögin. Svæðið er nú orðið eitt atvinnusvæði og því er ótvírætt hagræði af því að vera með eitt stórt félag á þessu svæði.

Ég er því sannfærður um að sú ákvörðun um að sameina félögin sé rétt félagslega þó að hún hafi ekki verið nauðsynleg vegna fjárhagslegrar stöðu VS. VS mun fylgja ríkulegur heimanmundur. Félagið stendur sterkt fjárhagslega með eigið fé upp á rúman hálfan milljarð í eignum og lausafé og engar skuldir. 

Að lokum
Ég hef við þessi tímamót tekið ákvörðun um að láta gott heita og þiggja ekki starf hjá VR þrátt fyrir boð þar um. Því fylgja vissulega blendnar tilfinningar en ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera hluti af VS í næstum þriðjung af líftíma félagsins. Sú reynsla sem ég hef öðlast verður ekki frá mér tekin og fyrir hana er ég þakklátur.

Mig langar til að færa samstarfsfólki mínu og stjórn bestu þakkir fyrir frábært samstarf í gegnum tíðina. Bryndís og Salbjörg, starfsmennn VS,  hafa verið mér  miklu meira en bara samstarfsmenn og milli okkar hefur myndast djúpstæð vinátta eftir áratuga samstarf. Félagsmönnum óska ég velfarnaðar, fullviss um að hagsmunum þeirra verður vel sinnt í sameinuðu stéttarfélagi.

Guðbrandur Einarsson
formaður og framkvæmdastjóri VS