Við skulum fylgjast spennt með
Það hefur verið nánast árviss viðburður undanfarinn áratug að óánægja sé látin í ljós þegar kemur að fjárveitingum ríkisins til þeirra málaflokka sem ríkinu er ætlað að sinna á Suðurnesjum. Sú óánægja hefur að mestu gengið út á að svo virðist vera sem reiknilíkan ráðuneytanna séu óháð tíma og rúmi þar sem ekkert tillit er tekið til þeirra öru breytinga sem hér eiga sér stað. Hvergi á landinu öllu hefur íbúafjöldi aukist meira en hér á Suðurnesjum. Ráðuneytin virðast þó föst í því fari að engin ástæða sé til breytinga reiknilíkana sinna. Þetta hefur gengið hingað til og hlýtur því að ganga svona áfram.
Reiknilíkan ráðuneytanna
Öllum er ljóst að leiðréttingar er þörf. Þingmenn okkar og sveitarstjórnir hafa eftir bestu getu vakið máls á stöðunni en án árangurs. „Computer says no,“ þegar kemur að líflausum reiknilíkönunum. Þau eru enn forrituð á þeim forsendum sem þeim voru gefnar í upphafi, fjarlægðum frá Reykjavík, hæð fjallvega og öðru í þeim dúr. Þau gera hins vegar ekki ráð fyrir að lífið haldi áfram eða að forsendur kunni að breytast. Að fólkinu kunni að fjölga sem nýta þurfi sér þjónustuna.
Óbreytt framlög
Við heyrum reglulega í ráðherrum þeim sem með fjárveitingar til málaflokkanna fara svara gagnrýnisröddum eitthvað á þá leið að gagnrýnin eigi bara alls ekki rétt sér. Víst sé aukning hvað framlögin varða. Sem er að vissu leyti rétt en sú aukning hefur því miður aðeins mætt verðlagshækkunum, auknum launakostnaði og hækkaðri húsaleigu í mörgum tilfellum reiknuðum af ríkinu sjálfu. Eftir situr að raunframlög ríkisins til þeirra málaflokka sem þeim er ætlað að sinna á Suðurnesjum hafa lítið sem ekkert hækkað á meðan íbúum hefur fjölgað um hátt í 40% frá árinu 2006.
Fordæmalaus fólksfjölgun kallar á aukna þjónustu og þar þýðir lítið fyrir ráðuneyti og valdamenn að syngja stöðugt sama sönginn um að Suðurnesjamenn hafi völlinn. Þær tekjur sem þaðan koma eru og verða ekki eyrnamerktar til að standa undir heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntun. Þeim fjárveitingum er ætlaður staður í fjárlögum þar sem allir íbúar þessa lands eiga að njóta sama réttar og sömu þjónustu. Öll borgum við jafnt hlutfall skatta af tekjum okkar til að standa straum af sameiginlegum kostnaði, sama hvar á landinu við búum.
Ábyrgð og virðing þingmanna
Alþingi Íslendinga er æðsta stofnun landsins. Vald alþingismanna er mikið, þar geta þeir haft áhrif á jafnvel dauðustu tölvukerfi, vilji þeir það viðhafa. Það er á ábyrgð þingmanna Suðurkjördæmis að íbúum á Suðurnesjum séu tryggðar fjárveitingar til jafns við aðra íbúa þessa lands. En til þess að breyta þá þurfa menn að þora. Það eru þingmenn okkar sem geta breytt stöðunni og það geta þeir gert strax við afgreiðslu næstu fjárlaga.
Það er í höndum okkar, kjósenda, að veita öllum þingmönnum Suðurkjördæmis aðhald. Hjálpa þeim að öðlast þá virðingu gagnvart öðrum þingmönnum, þannig að menn láti sér ekki detta í hug að við afgreiðslu næstu fjárlaga verði hagsmunir opinberrar þjónustu á Suðurnesjum fyrir borð bornir, enn á ný. Við skulum standa saman.
Við skulum fylgjast spennt með
Það er kominn tími til að við krefjumst þess að árangur náist í þessu sjálfsagða baráttumáli. Að við sitjum við sama borð og aðrir landsmenn. Þingmenn okkar þurfa að sameinast í baráttunni. Það gera þeir best með því að að láta það berast tímanlega að hér eftir verði engin fjárlög samþykkt af hálfu þeirra, nema að tryggt sé að fjárveitingar til stofnanna ríkisins á Suðurnesjum standi undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að sinna. Aðeins þannig mun viðhorf forritanna breytast og computer says „Accepted“. Við skulum fylgjast spennt með hvaða hagsmuni þingmenn okkar setja í forgang við undirbúning og afgreiðslu næstu fjárlaga.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson