Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Við lifum og þið viljið lifa
  • Við lifum og þið viljið lifa
Sunnudagur 25. maí 2014 kl. 08:46

Við lifum og þið viljið lifa

Síðustu mánuði og ár hefur margt farið í gegnum kollinn á mér. Hvað get ég gert sem einstaklingur í litlu bæjarfélagi til þess að það dafni vel?
Ég bý að þeim ókosti að hafa aldrei átt ömmu né afa á lífi, vegna þess þekki ég ekki svo mikið til daglegs lífs hjá eldra fólki. En mér hefur alla tíð þótt mjög vænt um eldra fólk, sérstaklega þegar ég var ungur og móðir mín forstöðukona yfir elliheimili, þá enduðu dagar mínir gjarnan hjá mömmu. Þar fékk ég hafsjó af sögum frá virðulegum körlum, og konum þótti nú gott að hafa strákpjakkinn til að kenna honum lífsreglurnar. Ég verð að segja að ofursögur karlanna heilluðu mig meira og gat ég setið svo tímunum saman og hlustað á þeirra hjal sín á milli. Af þessu hef ég lært að landið byggðist upp á berum höndum feðra okkar. Ég gleymi því aldrei þegar ég spurði frænda minn hann Þórhall Sigurjóns í Grindavík, og ég búsettur í Vestmannaeyjum, hvort hann vildi ekki vera afi minn.
Eitthvað vantaði í líf mitt og sú fallega tilhugsun þegar hann tjáði mér að auðvitað mætti ég kalla hann afa er mér fersk í huga. Við þetta róaðist ég allur að innan og hugsaði oft til þess að ég ætti afa í Grindavík. Tuttugu árum síðar lá svo leið mín til einmitt þangað. Móðir mín skikkaði mig að láta ættingja okkar vita að ég væri sestur hér að og man þann dag þegar ég rölti upp Víkurbrautina að Árnastígnum til að banka á hurðina hjá Ivari Þórhallsyni frænda mínum. Ég tók Daníel elsta son minn, sem þá var um 5 ára gamall, mér til halds og traust. Það var innileg heimsókn og fékk ég að sjá hjá honum afrakstur hans í smíðum á módelum og fleira áhugavert. Það var gott að vita af einhverjum nálægt mér. Í dag er þetta enn sterk minning.
Mér hefur ávallt þótt mjög vænt um eldra fólk og sérstaklega þegar ég hitti á fólk hér í bæ og annarstaðar sem getur sagt mér sögur af Palla Krata í Vestmannaeyjum alnafna mínum og afa. Steinþór Þorvaldsson hefur gefið mér góða innsýn í fyrri tíma og þekktust þeir afi. Af hverju er ég að ræða um uppvaxtar ár mín?Vegna þess að hér í bæ er samfélag eldri borgara sem mikil þörf er á að bæði sameina og búa þeim hlýlegra og félagslega betra umhverfi. Hafist var handan 2007 að gera deiluskipulag fyrir smáíbúðabyggð við Víðihlíð sem aldrei var lokið. Fyrir mér er brýnt að klára þetta skipulag og hefjast handa við að búa til samfélag á þessum reit sem verður líflegt og ákjósanlegur staður fyrir eldra fólk sem vill búa í nánd við vini og kunningja. Þetta er fólkið sem hefur byggt upp Grindavík og sáð þeim fræjum sem nú blómstra í fallegum bæ.
Ég vil að við höldum þeirri stefnu að öllum líði vel og sameina samfélag eldri borgara. Hver vill ekki á eldri árum geta rölt stuttan spöl í kaffi til vinars, eða hafa í göngufæri góðan samverustað þar sem nóg er af fjölbreyttri afþreyingu. Þetta eigum við að fara í og gæti verið átak hjá Grindavíkurbæ, lífeyrissjóðum, húseignafélögum og jafnvel að stéttarfélögin taki einnig þátt. Ég verð 35 ára gamall í sumar, finnst eins og ég hafi verið 16 ára fyrir fáum árum síðan. Á þessu ári verður samanlagður aldur allra minna barna í dögum talið sá sami og minn. Já ótrúlegt, þau hafa samanlagt lifað sama dagafjölda og ég og þetta segir mér að lifið heldur áfram dag eftir dag og að lokum uppskerum við erfiðið og komumst á lífeyri. Þá vil ég vera í samfélagi með vinum og kunningjum og að börnin mín viti að mér líði vel. 

Páll Þorbjörnsson
Höfundur skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar og er formaður Samfylkingar í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024