Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 15. apríl 2002 kl. 13:00

Við leitum að tækifærum, ekki vandamálum

Starf Sjálfstæðisflokksins hefur verið mjög öflugt á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið á enda. Fjölmennir og fjörugir laugardagsfundir hafa verið haldnir með reglulegu millibili á DUUS kaffi þar sem flokkurinn hefur uppskorið ferskar og gefandi umræður sem grafið hafa niður traustar stoðir til þess að byggja á. Orð eru til alls fyrst og umræður um hráa pólitík þar sem lífssýn flokksmanna á grundvallarhugtök eins og mannréttindi og skyldur samfélagsins hafa verið ofarlega á baugi í bland við frumkvæði og frjóar hugmyndir. Öll pólitíska flóran hefur borið á góma og reynt hefur verið að horfa á hlutina frá ýmsum sjónarhornum og í víðu samhengi. Ótal framfaramál í íslensku samfélagi hafa sprottið úr frjóum sverði gagnrýnnar hugsunar og markmið fundanna einmitt ætlað til þess að virkja þá auðlind sem í flokksmönnum býr.Málefnavinnan
Málefnavinnan hefur því verið í fullu fjöri allt kjörtímabilið og mikill hugur í herbúðum sjálfstæðismanna hefur einkennst af jákvæðni og hugmyndaauðgi. Mikil vinna hefur farið í að kortleggja leiðina framundan þar sem djörf framtíðarsýn hefur hreiðrað um sig og hugmyndafræði langtímaáætlana fest sig í sessi. Menn hafa lagt sig í líma við að horfa jafnvel tuttugu ár fram í tímann en ekki fjötrað sig niður með skyndilausnum sem skila sjaldan því sem til er ætlast. Hafa menn verið sammála um að gera þurfi gangskör í ímyndarmálum bæjarins og markaðssetja beri svæðið til framtíðar. Ennfremur sjá menn nú kosti þess að gera fólkið í bæjarfélaginu meira meðvitað um þróun mála svo allir geti tekið þátt í að gera bæinn okkar enn betri og koma honum svo á framfæri með stolti í hjarta. Hlutverk sveitarfélaga er að búa þannig um jarðveginn að hann sé gróskumikill og tilbúinn að taka við þeim fræjum sem fólkið vill sá í hann. Með öðrum orðum skapa aðlaðandi umhverfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að starfa og lifa í, þó svo að bæjarfélagið eigi ekki að standa sjálft í fyrirtækjarekstri. Varast verður einnig að stjórnmálamenn slái sig til riddara og dæli út peningum til þess að ná í atkvæði. Höldum áfram aðhaldssamri fjármálastefnu og vinnum markvisst að því að lækka skuldir. Miðum reksturinn við að búa í haginn fyrir framtíðina og göngum þannig frá hnútunum að reksturinn nái að skjóta rótum sem halda þegar harðnar í ári.

Stefnuskráin
Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins var kynnt á mánudaginn og vefrit okkar (kosning.is) opnað. Um stefnuna hefur skapast breið, víðtæk og málefnaleg samstaða og ætla ég ekki að fjölyrða um þá stefnu hér. Ég skora hins vegar á alla bæjarbúa að kynna sér vel þau gögn sem við höfum lagt fram og þau mál sem við setjum á oddinn fyrir komandi kosningar. Ég vil einnig minna á að rúm 90% af stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar hefur verið færð inní raunverluleikann og ljóst að sjálfstæðismenn mun halda þeirri stefnu sinni áfram að færa orð í efndir. Veldur hver á heldur og væll er ekki vænlegur til árangurs. Bjartsýni og jákvæðni búa til tækifæri og benda á leiðir til úrbóta en neikvæðni dregur úr mönnum allan hug og dug. Sá neikvæði sér vandamál í hverju tækifæri en sá jákvæði sér tækifæri í hverju vandamáli. Vissulega eru allstaðar brestir sem berja þarf í og gallar sem bæta verður úr, en við erum ekki að leita að vandamálum, heldur tækifærum.
Ríkharður Ibsen
Höfundur skipar 8. sæti
á D-lista sjálfstæðismanna
í Reykjanesbæ, fyrir sveitar-
stjórnarkosningarnar 25. maí nk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024