Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Við eigum afmæli í ár! Félag VG á Suðurnesjum 15 ára
Lagt á ráðin fyrir kosningarnar 2007. Atli Gíslason í pontu.
Mánudagur 19. september 2016 kl. 06:00

Við eigum afmæli í ár! Félag VG á Suðurnesjum 15 ára

- Aðsend grein frá Þorvaldi Erni Árnasyni

Þó Vinstri græn séu af sumum talin til gömlu flokkanna er hreyfingin enn á unglingsárum, aðeins 17 ára gömul. Svæðisfélag VG á Suðurnesjum var stofnað tveimur árum síðar og er því 15 ára nú.
Undirbúningsstofnfundur var haldinn í mars, stofnfundur í maí og fyrsta stjórnin kom fyrst saman í júní 2001. Fyrsti formaðurinn var Björg Sigurðardóttir ljósmóðir, fyrsti gjaldkeri Sævar Bjarnason verkamaður og fyrsti ritari Þorvaldur Örn Árnason líffræðingur og kennari. Fyrsta opna stjórnmálafundinn hélt félagið 22. nóvember það ár og var Ögmundur Jónasson gestur fundarins. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið (hér á Suðurnesjum rennur það allt neðanjarðar!).

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi haft mikilvægu hlutverki að gegna í stjórnmálalífi Suðurnesja en slagkrafturinn hefði mátt vera meiri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Afstaða gagnvart hersetu og brottför Bandaríkjahers
Vinstri græn (og Alþýðubandalagið, einn af forverum þeirra) hafa alla tíð barist gegn hersetu landsins, lögðu ávallt til að herstöðvasamningnum við Bandaríkin yrði sagt upp og herliðið sent heim til sín. Ástæðurnar eru margar, einkum þó barátta hreyfingarinnar fyrir friðsamari heimi gegn hvers kyns hernaðarofbeldi og eyðileggingu. Svo er það hverju samfélagi óhollt að verða háð hernaðaruppbyggingu þannig að friðsamt fólk fari að styðja hervæðingu til að verja atvinnu sína eða atvinnurekstur. Bandaríkjaher var um árabil stærsti atvinnurekandinn á Suðurnesjum og mörg íslensk fyrirtæki nærðust á honum.

VG vildi að Íslendingar tækju frumkvæðið, undirbyggju sig fyrir brottför hersins og vísuðu honum úr landi. Meðal annars skyldi undirbúa atvinnulíf á Suðurnesjum undir brottför hans. Fluttar voru um það þingsályktanir, haldnar ræður og skrifaðar greinar. Allt kom fyrir ekki, enda hreyfingin ekki í valdastöðu og valdhafar í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki grátbáðu herinn um að vera lengur þegar hann fór að huga að heimferð í lok síðustu aldar. Þannig var lengt í hengingarólinni og þegar Bandaríkjamenn ákveða á endanum að kalla herlið sitt heim - hvað sem gráti íslenskra valdhafa liði - þá var íslenskt þjóðlíf því óviðbúið. Því varð höggið á Suðurnesjum miklu þyngra en það þurfti að vera.

Vinstri græn á Suðurnesjum efndu til herkveðjuhátíðar á Ránni í Keflavík þegar herinn fór vorið 2006, fyrir 10 árum. Þar var húsfyllir og mögnuð dagskrá, meðal annars fróðlegt sagnfræðierindi Kristjáns Pálssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Njarðvík, og Rúnar Júlíusson söng við eigin gítarundirleik.

Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur nú að fullu jafnað sig eftir brottför hersins og þar sem áður voru hermenn og vígvélar er nú friðsamt fólk og margvísleg uppbyggileg starfsemi. Að vísu eru enn hernaðarmannvirki til staðar. Þangað koma hersveitir til æfinga með hávaða og látum, svonefnt loftrýmiseftirlit, enn er hernaðarsamningur við Bandaríkin í gildi, leifar kalda stríðsins. Þarna er verk að vinna fyrir íslenska friðarsinna.

Strax haustið 2006 mynduðu Vinstri græn á Suðurnesjum vinnuhóp undir forystu Atla Gíslasonar sem setti fram margar tillögur um hvað gera skyldi til að efla atvinnu- og mannlíf á hersvæðinu, hvernig nýta mætti mannvirkin sem herinn skyldi eftir og hvernig hreinsa skyldi mengun eftir hann. Vinstri græn höfðu lítil tök á að fylgja hugmyndunum eftir, enda ekki með fulltrúa í bæjarstjórnum og ekki í ríkisstjórn fyrr en 2009. Sumt gekk þó eftir undir forystu annarra, svo sem uppbygging háskólasamfélags, en annað ekki, svo sem alþjóðleg björgunar- og friðarmiðstöð eða fullkomið sjúkrahús við alþjóðaflugvöllinn. En Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn 2009 og auk rústabjörgunar eftir algjört efnahagshrun gáfust tækifæri til að koma fleiru í verk, ekki síst stuðningi við nýsköpun, þekkingariðnað og skapandi greinar, sem hafði vissulega áhrif hér á Suðurnesjum sem víðar.

Fjölþætt atvinnulíf og náttúruvernd
Frá upphafi hafa Vinstri græn verið andvíg þeirri miklu áherslu á stóriðju sem hægristjórnir hafa haft og kostað mikil áföll bæði fyrir efnahagslíf og íslenskar náttúrugersemar. Hreyfingin barðist af krafti gegn byggingu Kárahnúkavirkjunar og ekki síður gegn álveri í Helguvík með tilheyrandi náttúrueyðileggingu vegna stórfelldra virkjana. Þess í stað lagði VG áherslu á fjölþætta atvinnustarfsemi í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og félögum. Reyndar bentum við á að stóriðja var þegar til staðar og í örum vexti, nefnilega flugvöllurinn og flugstöðin, og lögðu áherslu á að efla ferðaþjónustu með stórkostlegum árangri, jafnvel um of! Umhverfisráðherrann okkar, Svandís Svavarsdóttir, varð fyrir fodæmalausum árásum Suðurnesjaafturhaldsins í fjölmiðlum fyrir það að sinna starfsskyldum sínum og taka til varnar fyrir náttúruperlur á Reykjanesskaga - með því að sjá til þess að vel yrði farið yfir kosti þess að Suðvesturlína yrði metin ásamt öðrum framkvæmdum tengdum umræddu álveri í Helguvík. Hún benti einnig á að ekki lægi fyrir hvaðan orka ætti að koma til slíkrar starfsemi og vildi því staldra við. Svandís var sökuð um að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu en síðar kom í ljós að sú óverulega töf sem þá varð breytti engu um þá staðreynd að áform um álver í Helguvík voru byggð á sandi. Nú verður æ fleirum ljóst að þeir varkáru höfðu lög að mæla og álversmannvirki, sem risu í Helguvík án tilskilinna leyfa, standa þar straumlaus. Dýr minnisvarði um atvinnustefnu hægrimanna á Suðurnesjum, í öllum flokkum nema Vinstrigrænum! Á sama tíma þenst flug- og ferðamannastarfsemin svo ört út að jafnvel horfir til vandræða. Atvinnuleysi er hverfandi og skortur á vinnufólki.

Bjart framundan
Vinstri græn á Suðurnesjum undirbúa nú Alþingiskosningar í samvinnu við framsækið fólk fyrir austan fjall. Við höfum lagt fram lista í Suðurkjördæmi með öflugu og flottu fólki með skýr stefnumið um jöfnuð, réttlæti, náttúruvernd, kvenfrelsi, menntir og fleira. Við hvetjum fólk til að kynna sér vel hvað við höfum fram að færa og vanda valið í kjörklefanum 29. október næstkomandi. Við munum berjast fyrir eflingu bæði heilbrigðis- og menntakerfis, styrkingu innviða samfélagsins – meðal annars með því að auka tekjur sveitarfélaga - og mannsæmandi kjörum launafólks, eldra fólks og öryrkja. Við munum eftir sem áður vinna að umhverfisvernd, jöfnuði, réttlæti og raunverulegu frelsi.

Þorvaldur Örn Árnason
- í stjórn VG á Suðurnesjum frá upphafi