Við boðum jákvæðar breytingar!
Kæru íbúar,
við búum á svæði þar sem miklir möguleikar eru til að efla fjölbreytt atvinnulíf og efla þannig tekjur samfélagsins.
Við erum við alþjóðaflugvöll, eigum frábærar hafnir, nægt landsvæði. Við eigum frábært ungt fólk sem vill og getur aukið fjölbreytni í atvinnulífi og menningu.
Við eigum ekki að sitja með hendur í skauti og bíða eftir að fyrirtækin komi, heldur sækja þau og taka vel á móti þeim um leið og við hlúum vel að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru.
Öflugt atvinnulíf er ávísun á hærri tekjur og það, ásamt réttri forgangsröðun, gefur okkur færi til að boða breytingar í þágu íbúa. Með jákvæðni í garð samfélagsins horfum við áhugasöm og stolt fram á veg.
Við erum með sterka framtíðarsýn til næstu fjögurra ára sem fjöldi íbúa vann að. Við höfum farið vel yfir málin og getum staðið við það sem við setjum fram.
Við munum tryggja að leikskólar bjóðist fyrir börn 18 mánaða og eldri og skapa fjölbreyttari úrræði fyrir 12–18 mánaða börn.
Í víðfeðmum bæ þarf að styrkja starfsemi félagsmiðstöðva í hverfunum, fyrir unga fólkið okkar.
Við munum stórauka fjárframlög til íþróttamála og hollrar hreyfingar. Heilbrigðið ungra sem aldinna er forgangsmál.
Við munum gera hverfin okkar fallegri með gróðri og göngustígum.
Við erum sveitarfélag með frábært fólk og ef haldið er rétt á spilunum þá eru okkur allir vegir færir.
Við erum með 22 öfluga einstaklinga í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem brenna fyrir sveitarfélagið.
Við munum öll leggja okkur fram við að byggja aftur upp eitt eftirsóttasta sveitarfélagið þar sem fólk vill búa og fjölskyldan er í fyrirrúmi.
Í starfinu höfum við kynnst fólki úr öllum flokkum og framboðum sem vill samfélaginu vel og við hlökkum til samstarfsins.
Komið með okkur í breytingaliðið! XD
Margrét Sanders,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.