Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Við ætlum að ná árangri!
Föstudagur 2. júlí 2010 kl. 09:23

Við ætlum að ná árangri!

Á síðasta ári kynnti Félag Íslenskra bifreiðaeiganda metnaðarfulla áætlun sem gerir ráð fyrir að enginn látist í umferðarslysum á heilu ári á Íslandi undir kjörorðinu “Núllsýn FíB fyrir árið 2015”. Hefur hún þegar vakið athygli út fyrir landssteinana enda vissulega um metnaðarfullt markmið að ræða, raunhæf engu að síður þegar horft er til árangurs síðustu ára og aukna vitundarvakningu um að umferðarslys séu ekki órjúfanlegur hluti af umferðinni. Á fyrri helmingi þessa árs hafa því miður þrír einstaklingar, allt ungt fólk, látist í umferðinni. Skelfileg slys sem kölluðu á mikla umræðu og samkennd í þjóðfélaginu þrátt fyrir að aldrei hafa færri látist í umferðinni á sex mánaða tímabili um langt árabil. Ástæðan er að hvert banaslys er einfaldlega einu of mikið og um það erum við í raun öll sammála. Núllsýn FíB er því ekki einungis verðugt markmið heldur í fullu samræmi við væntingar okkar í umferðinni. Því miður náðu drög að núllsýn í umferðinni í nýrri samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar ekki fram að ganga að þessu sinni en það er trú okkar að samgönguyfirvöld muni fyrr en síðar setja sér þessi sömu markmið og við þannig saman náð þeim árangri að Ísland verði fyrsta landið í heiminum þar sem engin lætur lífið í umferðinni á heilu ári.

Á alþjóðlegum vettvangi voru stór skref tekin í mars s.l. í baráttunni við umferðarslys að frumkvæði móðurfélags okkar FIA en Sameinuðu þjóðirnar samþykktu fyrr á árinu átak til fækkunar umferðarslysa á árunum 2011 til 2020 undir kjörorðunum “Decade of Action for Road Safety”. Systurfélög FÍB í Evrópu hafa þegar markað sér höfuð stefnu fyrir þennan "Áratug Aðgerða", sem er "European Capaigne for Safe Road Design". Félag Íslenskra bifreiðaeiganda eru stoltir aðilar að þessu átaki og hafa unnið að undirbúningi þessa merka áfanga síðustu ár. Stærsta verkefni okkar er þó að ná árangri hér innanlands og vera leiðandi í umræðunni á heimsvísu. Góð löggæsla og forvarnarverkefni m.a. frá Umferðarstofu sem unnin eru í samræmi við umferðaröryggisáætlun stjórnvalda skipta miklu máli í þessu samhengi. Þá hafa ýmsar framkvæmdir síðustu ára haft fækkun umferðaslysa sem aðalmarkmið og má þar nefna tvöfalda Reykjanesbraut sem hefur nú verið án banaslysa í sex ár. Samskonar framkvæmdir á Suðurlandsvegi sem nú eru hafnar lofa því góðu en þar hafa Samgönguyfirvöld gengið lengra hvað varðar umferðaröryggisþætti í útboðinu en áður þekkist hér á landi með að setja kröfu um nauðsynleg vegrið strax í útboðsgögnum. Þessum einstaka þætti ber að fagna og fylgja eftir að þetta jákvæða verkferli sé komið til að vera á sem flestu sviðum öryggisþátta í byggingu vega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félag Íslenskra bifreiðaeiganda hefur á síðustu tveimur árum unnið að svokölluðu EuroRAP verkefni sem hefur þann tilgang að greina allar hættur á vegum landsins en fyrsta skýrslan hefur verið afhent stjórnvöldum og Vegagerð til úrlausnar. Þá hefur samskonar vinna hvað varðar umferðaröryggisþætti í veggöngum, EuroTAP, hafist og verður fróðlegt að sjá hvernig veggöng á Íslandi koma út í samanburði við önnur lönd sem við viljum bera okkur saman við. Því miður má ætla að sá samanburður verði okkur ekki hagstæður til að byrja með, en með skýrslu um þessi atriði má lagfæra það sem miður fer og þannig ná árangri sem við getum verið stolt af.

Í niðurstöðum slysaskráningar Umferðarstofu fyrir árið 2009 má sjá jákvæða þróun hvað varðar fækkun alvarlegra umferðarslysa og banaslysa en þar kemur m.a. í ljós að á síðustu þremur árum létust að meðaltali tæplega 15 manns í umferðarslysum á landinu en næstu þrjú ár á undan létust rúmlega 24 ár hvert. Í þessu tölfræðilega samhengi er ljóst að árið 2010 byrjar betur en sést hefur síðustu áratugi hér á landi og útfrá þeim árangri ætlum við að vinna áfram. Þessa jákvæðu þróun má vissulega þakka ökumönnum sjálfum, auknu eftirliti lögreglu, aukinni fræðslu og áróðurs sem og betri skrásetningu á hættulegum vegköflum með EuroRap og úrbætum Vegagerðarinnar í framhaldi af því.

Í dag er lag til að tryggja síðara hluta ársins án alvarlegra slysa og banaslysa og þannig sjá niðurstöðu í lok ársins sem ekki hefur sést fyrr hér á landi. Sá árangur yrði gott veganesti í þeirri vegferð sem við nú vinnum eftir og gæti skapað okkur raunhæfa trú á verkefninu sem framundan er.

Steinþór Jónsson,
Formaður Félags íslenskra bifreiðaeiganda.