VG á Suðurnesjum gegn mengandi stóriðju á svæðinu
- Aðsend grein frá stjórn VG á Suðurnesjum
Með því að beita sér ekki til að tryggja heilnæmt umhverfi er Umhverfisstofnun að bregðast hlutverki sínu gagnvart almenningi á Suðurnesjum.
UST bregst hlutverkinu sem henni er ætlað að starfa eftir, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með því að stöðva ekki iðnað sem veldur tjóni og hefur neikvæð áhrif á heilsufar almennings og röskun lífríkis og umhverfi.
Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi.
Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 90/2002 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem hljóða svo: Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. (1998, nr. 7 12. mars).
UST hefur sýnt einstakt ábyrgðarleysi gagnvart íbúum Reykjanesbæjar með því að veita starfsleyfi til tveggja kísilverksmiðja kílómetra frá íbúarbyggð.
Mengandi iðjuver á Suðurnesjum bera einhliða ábyrgð á umhverfisvöktun á eigin mengun samkvæmt starfsleyfum sem UST gefur út og ber ábyrgð á.
Umhverfisstofnun vinnur því gegn lagalegri skyldu sinni þar sem allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið án eftirlits eða ábyrgðar.
Vinstri hreyfingin Grænt framboð á Suðurnesjum mun berjast gegn mengandi stóriðju á Suðurnesjum til framtíðar.
Stjórn VG á Suðurnesjum