Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vertu sérstakur lestrarþjálfari barnsins þíns
Þriðjudagur 9. september 2014 kl. 10:45

Vertu sérstakur lestrarþjálfari barnsins þíns

Jóhanna Helgadóttir skrifar:

Eitt það gagnlegasta sem ég hef sótt í grunnskólann sem foreldi er foreldrafundur sem haldinn var í upphafi skólaársins þegar dóttir mín byrjaði í 1. bekk í Holtaskóla fyrir rúmu ári síðan. Þar vorum við hjónin útnefnd sem sérstakur lestrarþjálfari barnsins okkar. Það voru þær Guðbjörg Rut Þórisdóttir lestrarfræðingur og Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur sem héldu erindi á þessum fundi ásamt umsjónarkennurum 1. bekkjar. Lestrarferlið var útskýrt fyrir okkur og hugtök sem oft eru notuð í tengslum við lestur eins og hljóðkerfisvitun og umskráning, lesskilningur og orðaforði voru útskýrð og þeim gert nánari skil. Ákveðnar upplýsingar varðandi hljóðkerfisvitund og mikilvægi fjölbreytts orðaforða hefði ég sjálf viljað hafa vitað fyrr, þ.e. í leikskóla. Sérstaklega það sem þær kynntu til sögunnar sem hliðartal, þegar foreldri talar við barnið sitt á meðan það vinnur verkefni og útskýrir hvað það er að gera. Eins og þessi einföldu verkefni þegar við tökum úr þvottavélinni og segjum: Nú ætla ég að hengja upp rauðu peysuna. Erum í bílnum og útskýrum hvert við ætlum og hvað við erum að fara gera. Þetta hliðartal er líka gríðarlega mikilvægt á leikskólum, leikskólakennarar hafa möguleika á því að setja svo margar athafnir á degi hverjum í orð.

Orðaforði barns við upphaf lestrarkennslu er gríðarlega mikilvægur. Ég reyni að segja frá þessu frábæra framtaki Holtaskóla alls staðar þar sem ég kem. Nú eru mörg börn að hefja lestrarnám sitt í skólum landsins. Á sama tíma verðum við foreldrarnir, forráðamenn barnanna og jafnvel amma og afi að sérstökum lestrarþjálfurum barnanna okkar. Ég hvet ykkur verðandi lestrarþjálfarar að taka hlutverki ykkar með þolinmæði, því fyrstu skrefin eru svo ólík. Sum börn eru svo spennt, jafnvel byrjuð að tengja saman stafi, hljóð í orð, á meðan önnur eru áhugalaus og gæti ekki verið meira sama yfir þessu öllu saman. Sum börn vilja sitja lengi við og fá að lesa mikið, á meðan önnur börn vilja helst bara lesa lítið í einu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það verða einhverjir sem stauta sig í gegnum „Ása á ás“, á meðan önnur renna ljúft í gegn og vilja fá meira. Þetta er allt eðlilegt í upphafi og kennarar skólanna okkar hafa ógrynni af góðum ráðum sem geta nýst við lesturinn. Það sem skiptir miklu máli er að við lestrarþjálfararnir gefumst ekki upp. Að við hlustum á barnið lesa á hverjum degi skv. þeim leiðbeiningum sem skólinn okkar setur okkur. Ef okkur finnst ekki ganga sem skyldi þá skulum við leita til umsjónarkennara okkar og fá góð ráð. Sú staða kemur ævinlega upp á hverju skólaári að foreldrar geta ekki verið lestrarþjálfarar. Móðurmál foreldranna er annað og/eða forsendur þess að þjálfa lestur með barninu eru ekki til staðar. Skólarnir okkar hafa á sínum snærum lestrarömmur og jafnvel lestrarafa sem koma í skólann og gerast lestrarþjálfarar barna sem þurfa á slíku að halda. Þetta er frábært framtak fólks í sjálfboðastarfi sem jafnar stöðu barnanna til þjálfunar í lestri. Ég vil hvetja alla þá sem hafa áhuga á því að gerast lestrarþjálfarar í sjálfboðastarfi að hafa samband við skólann næst sér og bjóða fram krafta sína. Það er ekki raunhæft að ætlast til þess að skólinn sjái einn um lestrarþjálfun barna okkar, þar skiptum við sköpum.

Jóhanna Helgadóttir
Höfundur er grunnskólakennari og verkefnastjóri.