Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vertíðarlok og vertíðarstemning
Fimmtudagur 9. maí 2019 kl. 05:00

Vertíðarlok og vertíðarstemning

Þann 11. maí eru vertíðarlok árið 2019 eins og verið hefur ár hvert. Vertíð eða vertíðarstemning er ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig þetta var áður fyrr. Fyrst ég opna þennan pistil á vertíðinni þá er rétt að nefna það að eitt besta knattspyrnulið landsins, Reynir Sandgerði, ætlar sér að breyta aðeins útaf hinum hefðbundna þorrablótsvana eins og mörg önnur íþróttafélög eru með, því Reynismenn ætla sér að halda „vertíðarlok 2019“, ball og með flottum mat. Fer þetta fram í íþróttahúsinu í Sandgerði.

Þetta er nýbreytni og má segja að það sé langt síðan vertíðarlokaball hafi verið haldið hérna á Suðurnesjum. Hægt er að panta miða á [email protected]. Endilega þrusið ykkur á miða og skellið ykkur á þetta ball. Flott dagskrá og veislustjóri er Hjörvar Hafliða sem vill svo til að er sonur Hafliða Þórssonar sem var með útgerð og fiskvinnslu í Sandgerði og rak meðal annars loðnuverksmiðjuna, þeirri sömu og minnst var á í pistlinum um páskana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðeins meira um Hafliða en þá vann ég hjá honum bæði í verksmiðjunni og var annar vélstjóri um borð í Þór Péturssyni GK, sem var togbátur og heitir í dag Helgi SH. 

Já, vertíðin 2019 er að verða búin og á meðan hún er að klárast þá er grásleppuvertíðin ennþá í gangi og núna er enn ein vertíðin að komast í gang, strandveiðitímabilið. Kannski ekki hægt að kalla það vertíð, því allir eru bundnir við 800 kílóa afla á dag miðað við þorsk. Þó er það þannig að þeir sem einbeita sér að því að veiða ufsa mega koma með um 1200 kíló af ufsa í land í einni löndun. Það er nefnilega þannig að á svæðinu í kringum Eldey hefur oft verið að finna ufsa og þó nokkrir bátar hafa lagt sig í líma við það að veiða ufsa á handfærin.

Þekktust eru náttúrlega Stjáni og kona hans, sem réru í mörg ár á eikarbátnum Skúmi RE frá Sandgerði. Samhliða honum var báturinn Birgir RE líka alltaf á veiðum skammt frá Skúmi RE en  þessi bátar réru ár eftir ár á færum frá Sandgerði og voru að mestu að einbeita sér að ufsa.

Ef við færum okkur aðeins nær nútímanum þá var um tíma einn bátur sem var hvað mest að eltast við ufsann á handfærum og gekk það svo vel eitt árið að Ragnar Alfreðs GK var aflahæstur allra smábáta á landinu í ufsa. Til að mynda landaði báturinn fiskveiðiárið 2009-2010 alls 140 tonnum af ufsa og í júní árið 2010 var báturinn með 62 tonn í ellefu róðrum og mest 10,3 tonn í einni löndun og var mest allt ufsi.

Kvóti bátsins varð enda ansi góður því að síðasta úthlutun á Ragnari Alfreðs GK var árið 2015 og var þá báturinn með um 320 tonna kvóta en af því var ufsi um 146 tonna kvóti. Kvótinn var að endingu allur seldur af bátnum og endaði ufsinn á Sæla BA frá Tálknafirði og restin af kvótanum endaði, með viðkomu á Magnúsi GK, yfir á Kristni SH frá Ólafsvík.

Já, svona er þetta skemmtilegt með þennan blessaða kvóta. Við Suðurnesjamenn höfum misst alveg óhemju af kvóta nema þeir í Grindavík, sem hafa styrkt sig undanfarin ár. Til dæmis í Keflavík þá er nú ekki mikill kvóti skráður þar og svo til enginn stór bátur þar skráður með kvóta. Sem er öfugt við það sem áður var. 
Vísir í Grindavík keypti Óla Gísla GK og gaf honum nafnið Sævík GK. Það sem af er maí hefur einmitt Sævík GK fiskað nokkuð vel og hefur landað 43 tonn í 5 róðrum og er, þegar þetta er skrifað, aflahæstur smábáta á landinu að 15 tonnum og er með nokkra yfirburði yfir aðra báta í sama flokki.

Kannski að við kíkjum á kvótasögu í næstu pistlum. Ég get rakið nokkuð langt aftur í tímann hvert kvóti af þessum og þessum báti eða togara hefur farið. Ég vil bara ítreka að lokum að allir sem vettlingi geta valdið og eiga laust laugardagskvöld 11. maí, skellið ykkur í Sandgerði á vertíðalokin 2019.