Veröld í heimi Bakkuss
Það var snemma sem ég lærði Æðruleysisbænina
Magnús Guðbergsson
(1955-1997)
Faðir minn, Magnús Guðbergsson, var fæddur á Húsatóftum í Garði þann 4. janúar 1955. Hann var næst yngstur af níu systkinum og bjó allan sinn aldur í Garðinum utan síðustu árin á Hringbraut í Keflavík. Pabbi átti góða og heilbrigða æsku og ólst upp í góðu yfirlæti hjá foreldrum sínum Guðbergi Ingólfssyni og Magnþóru Þórarinsdóttur á Húsatóftum í Gerðum. Pabbi var hæfileikaríkur maður, sniðugur og orðheppinn með eindæmum, eins og hann átti kyn til. Hann starfaði lengst af ævi sinnar við bílaviðgerðir og þótti bæði handlaginn og lúnkinn í sínu fagi. Fyrir 20 árum síðan tók faðir minn, Magnús Guðbergsson, stóra ákvörðun í sínu lífi. Honum fannst sér betur borgið í landi guðs og féll fyrir eigin hendi 7. apríl 1997.
Öll börn, sem sjá foreldra sína undir áhrifum áfengis, upplifa mikið óöryggi. Tilfinning eins og veröldin sé að hrynja og engin geti komið þér til bjargar. Ég var 9 ára gamall er ég sá föður minn í fyrsta sinn undir áhrifum. Hann kallaði á mig úr herbergi sínu og ég heyrði strax að eitthvað var öðruvísi en vanalega. Hann lá í rúminu um hábjartan dag (sem var ekki vanalegt) og bað mig að tala við sig. Ég steig rólega innum dyrnar á herberginu og sá að hann teygði sig í skúffu í náttborðinu og náði í pening. Því næst bað hann mig að fara útí búð og kaupa fyrir sig samloku. Ég hafði aldrei neitað að gera neitt sem hann bað mig um að gera, en í þetta sinn sagði ég strax - Nei. Ég geri það ekki fyrir þig. Ég man lítið meira fyrr en síðar um kvöldið. Þá komu bræður hans og konur þeirra og reyndu að tjónka við honum og ég heyrði strax að þetta var ekki í fyrsta skipti sem það var gert. Þau reyndu að fá hann til þess að hella úr flöskunni, sem gekk ekki vel og svona gekk þetta langt fram eftir.
Það var töluvert áfall að sjá fyrirmynd sína í þessu ástandi, fram að þessu hafði mig ekki grunað að faðir minn drykki áfengi, eða gerði nokkur mistök. Hann var einstaklega góður pabbi, kunni mikið af sögum, og var duglegur að finna einhvað fyrir okkur að gera. Hvort sem það var að fara í bíltúr eða heimsækja vini hans, sem er mér einstaklega minnisstætt. Einhvertímann hafði mamma reynt að fá hann til að minnka sælgætisátið. En það stoppaði hann ekki við að koma við í sjoppunni í hver einasta skipti sem við fórum í bíltúr til að kaupa staur og kók. Hann pabbi passaði sig líka á því að ef við mættum nú mömmu í göngutúr, að heilsa henni með kókinu eða súkkulaðinu, henni til mikillar ánægju.
Það má segja að þarna hafi orðið þáttaskil í mínu lífi er ég gekk inn um dyrnar á svefnherberginu. Fljótlega skildu foreldrar mínir og ég fór ásamt bróður mínum í helgarheimsóknir til pabba öðru hvoru. Það var greinilegt að pabbi reyndi að standa sig á þessum tíma og halda sig frá áfenginu, en margir í kringum hann reyndu að hafa áhrif á hann. Í stað þess að halda honum frá víninu þá var reynt að halda því að honum og ég var vitni að því mörgum sinnum. Ég man að kona ein í plássinu hringdi látlaust í hann og bað hann að kíkja í heimsókn. Hann svaraði aftur og aftur að hann væri með börnin sín og hann væri að reyna að hætta þessu. Um nóttina vaknaði ég og það hafði tekist hjá vinum hans. Pabbi var farinn út.
Pabbi átti líka í samböndum með konum sem áttu við sama vandamál að stríða, sem gerði auðvitað illt verra. Slík var drykkjan að það var engu líkara en að þær konur væru andsetnar og mér er full alvara. Hvernig hægt er að koma svo miklu af áfengi niður er mér ómögulegt að skilja. Fólk í þannig ástandi sem reynir að gefa manni foreldraleg ráð er eitthvað sem mun sitja í mér það sem eftir er. Ég er ekki að kenna neinum öðrum um neitt en eftir þetta var ekki aftur snúið hjá pabba. Oft var ástandið á honum það slæmt að hann gerði hluti sem hann hefði aldrei undir neinum öðrum kringumstæðum gert og ég læt ósagt hér. En það er nokkuð, sem ég þarf að lifa með í höfðinu það sem eftir er. Eftir að pabbi flutti til Keflavíkur reyndi ég að fylgjast með honum, þrátt fyrir að geta lítið gert fyrir hann. Enda bara barn. Ég hjólaði til Keflavíkur til að athuga með hann. Ef hurðin var læst gat ég fylgst með gegnum skrárgatið til að athuga hvort það væri í lagi með hann. Í barnsminninu er flöskuhaf á gólfinu og allt í kringum hann flöskur sem innihéldu löglegt vímuefni.
Mér er sagt að pabbi hafi verið ungur að árum er hann ánetjaðist áfengi og strax við fyrsta sopann. Hann fór í margar meðferðir á hinar ýmsu stofnanir og heimili. Það var skrítin tilfinning að heimsækja pabba á slíka stofnun. Þar sem hann mætti mér í hvítum slopp eins og sjúklingur, sem hann var. Hann skammaðist sín fyrir það og það var erfitt að sjá hve illa honum leið. Pabbi var skemmtilegur maður og ég held að hann hafi verið fljótur að kynnast fólki, sem var honum að skapi. Það var eins og hann hafi þekkt aðra vistmenn heimilisins í mörg ár. Þar voru þjóðþekktir menn og ég man sérstaklega eftir einum manni sem var kallaður "Hringur" og var útigangsmaður. Honum og pabba virtist vera vel til vina. Pabbi kynnti mig sérstaklega fyrir honum og ég man að puttarnir á honum voru allir krepptir í hring.
Síðasta skiptið sem ég hitti pabba var á Hringbrautinni í Keflavík. Hann var þá á leiðinni í meðferð og endanlega búinn að brenna allar brýr að baki sér. Það er eins og hann hafi vitað að þetta væri búið. Hann gat ekki sleppt mér eitt andartak á meðan pakkað var niður í tösku fyrir hann. Hann grátbað mig að koma og vera með sér í bílnum á leiðinni í meðferð, en ég neitaði. Mig grunaði ekki að þetta væri síðasta skiptið sem ég myndi hitta hann. Hann var hræddur og þurfti augljósleg á mér að halda en ég gat ekki látið það eftir honum, vegna þess að ég var svo reiður við hann. En það verð ég að lifa með.
Ég man jarðarförina eins og hún hefði gerst í gær. Það er nefnilega svo merkilegt að fólk sem lét sig ekki varða það að ungur strákur væri að reyna hvað hann gat til að koma föður sínum til bjargar, leyfði sér að segja við mig að ég væri tilfinningalaus. Af því að ég sýndi engin viðbrögð í jarðarförinni. Það er líka merkilegt að það var allt fullorðið fólk sem var með fordóma, ekki bekkjarfélagar eða krakkar í skólanum. Kona á níræðisaldri sagði eitt sinn að pabbi væri heiðarlegasti maður sem hún hefði kynnst. Uppnuminn að heyra það, þar til hún bætti við: „Hann borgaði alltaf flöskuna daginn eftir, sem hann fékk lánaða“. Hvað fær fólk til að segja svona verður það að eiga við sig og líklega er því ekki bjargandi, komið á þennan aldur og ekki náð meiri þroska en þetta.
Þegar áfengisfrumvarpið hefur komið til umræðu get ég ekki annað en vorkennt þeim sem það styðja. þetta veika frumvarp. Að vilja menga matvöruverslanir með sölu á löglegu vímuefni er enn eitt skrefið niður á við í okkar þjóðfélagi.
Það sem börn alkólista þurfa að þola er í flestum tilfellum neikvætt og þau eiga erfitt með að öðlast innri ró. Skömmin, sektarkenndin, kvíði, reiði og þunglyndi hefur fylgt mér fram á fullorðinsár. Þegar fyrirmyndin manns fer á þennan hátt, hefur maður ósjálfrátt sjálfur tilhneigingu að hugsa á sama veg. Maður hugsar að sjálfsvíg sé eina lausnin við erfiðu vandamáli, ósjálfrátt. En auðvitað er það ekki. Ekkert sem ég hef reynt til að komast yfir þetta hefur gengið. Sú slæma mynd sem lifir í höfði mér vegur meira á vogarskálinni en það góða. Það eitt er aðeins ein af afleiðingum þess sem þessi skæði sjúkdómur hefur haft í för með sér sem þessi góði maður og hans fjölskylda varð að gjalda fyrir.
En maður reynir og vonandi mun það góða sigra að lokum.
Guðmundur Magnússon