Verður boðið upp á NEI á kjörseðlinum?
Jón Gunnarsson, oddviti Vatnsleysustrandarhrepps og Heiður Björnsdóttir hjá PARX brugðust skjótt við grein eftir mig sem birtist hér á þessum vettvangi á þriðjudaginn var. Ég þakka þeim fyrir skjót og skýr svör.
Nú er mér ljóst að ég hef misskilið skoðanakönnunina sem gerð var í Vatnsleysustrandarhreppi í des. sl. til að kanna hug hreppsbúa til sameiningar. Ég hef staðið í þeirri trú að ætlunin hafi m.a. verið að kanna hvort hreppsbúar vildu yfir höfuð sameinast einhverjum, og spurningin “gætir þú hugsað þér að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum” hafi verið til þess. Nú er mér orðið ljóst að svo var ekki. Tilgangurinn með þeirri spurningu var sem sagt sá að sortéra frá okkur sem vorum klár á því að við vildum ekki sameinast – en halda okkur þó til haga!
En það hafa fleiri misskilið tilgang þessarar skoðanakönnunar en ég. Í lokaskýrslu sameiningarnefndar segir nefnilega á bls. 54 um téða könnun: “Niðurstöður könnunarinnar gefa vísbendingu um að íbúar Vatnsleysustrandarhrepps séu hlyntir sameingingu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög, og þá helst Hafnarfjarðarkaupstað.” Sameiningarnefndin féll þannig í sömu gryfju og ég.
Hefur þú tekið eftir því, lesandi góður, að handan við Reykjavíkurborg er sveitarfélagið Kjósarhreppur með aðeins 150 íbúa og þar verður ekki kosið um sameiningu á laugardag. Kjósarhreppur fékk Háskólann á Akureyri til að kanna hug íbúanna til sameiningar. Háskólinn vandaði til verka og sendi spurningalista inn á hvert heimili og gaf fólki þannig tækifæri til að hugsa og ræða um sín svör. Svarhlutfallið var svipað og í símakönnun PARX hér, en munurinn sá að 75% Kjósverja taldi enga þörf á sameiningu. Sú niðurstaða varð m.a. til þess að þar verða engar kosningar á laugardag. Getur hugsast að okkar mál hefðu farið í þvílíkan farveg ef okkur hefði gefist kostur á að hugleiða og meta þörf okkar á að sameinast – í stað þess að spyrja í síma hvað við gætum hugsað okkur að gera?
Nú hafa Jón og Heiður kveðið upp úr með það að skoðanakönnunin var gerð til að fá fram hverjum við vildum sameinast, ekki hvort við vildum sameinast. Þetta lýsir því vel hversu lýðræðislega þenkjandi hreppsnefndin okkar er. Líka því hversu húsbóndaholl hún er gagnvart ríkisstjórninni. Úr því að það var ljóst að félagsmálaráðuneytið vill þrýsta á sveitarfélög til sameiningar var bara gengið hreint til verks. Verði þeirra vilji – eða þannig. Vandinn var bara sá að finna út hvaða sameiningarkost léttast væri að fá hreppsbúa til að samþykkja. Skoðanakönnunin var hagnýt í þeim tilgangi. Sameiningarnefndinni hafði nefnilega ekki dottið í hug að draga Hafnarfjörð inn í dæmið. Sú hugmynd hlýtur að hafa fæðst hjá hreppsnefndinni – og margir hreppsbúar svöruðu í símann og hugsuðu að líklega væri það illskásti kosturinn.
Í desember var sem sagt ekki boðið upp á að hafna sameiningu. Nú vaknar sú spurning hvað muni standa á kjörseðlinum sem við fáum á laugardaginn. Verður þar boðið upp á NEI? Verða þar e.t.v. mörg JÁ í mismunandi litum?
Þorvaldur Örn Árnason
Kirkjugerði 7, Vogum
Nú er mér ljóst að ég hef misskilið skoðanakönnunina sem gerð var í Vatnsleysustrandarhreppi í des. sl. til að kanna hug hreppsbúa til sameiningar. Ég hef staðið í þeirri trú að ætlunin hafi m.a. verið að kanna hvort hreppsbúar vildu yfir höfuð sameinast einhverjum, og spurningin “gætir þú hugsað þér að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum” hafi verið til þess. Nú er mér orðið ljóst að svo var ekki. Tilgangurinn með þeirri spurningu var sem sagt sá að sortéra frá okkur sem vorum klár á því að við vildum ekki sameinast – en halda okkur þó til haga!
En það hafa fleiri misskilið tilgang þessarar skoðanakönnunar en ég. Í lokaskýrslu sameiningarnefndar segir nefnilega á bls. 54 um téða könnun: “Niðurstöður könnunarinnar gefa vísbendingu um að íbúar Vatnsleysustrandarhrepps séu hlyntir sameingingu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög, og þá helst Hafnarfjarðarkaupstað.” Sameiningarnefndin féll þannig í sömu gryfju og ég.
Hefur þú tekið eftir því, lesandi góður, að handan við Reykjavíkurborg er sveitarfélagið Kjósarhreppur með aðeins 150 íbúa og þar verður ekki kosið um sameiningu á laugardag. Kjósarhreppur fékk Háskólann á Akureyri til að kanna hug íbúanna til sameiningar. Háskólinn vandaði til verka og sendi spurningalista inn á hvert heimili og gaf fólki þannig tækifæri til að hugsa og ræða um sín svör. Svarhlutfallið var svipað og í símakönnun PARX hér, en munurinn sá að 75% Kjósverja taldi enga þörf á sameiningu. Sú niðurstaða varð m.a. til þess að þar verða engar kosningar á laugardag. Getur hugsast að okkar mál hefðu farið í þvílíkan farveg ef okkur hefði gefist kostur á að hugleiða og meta þörf okkar á að sameinast – í stað þess að spyrja í síma hvað við gætum hugsað okkur að gera?
Nú hafa Jón og Heiður kveðið upp úr með það að skoðanakönnunin var gerð til að fá fram hverjum við vildum sameinast, ekki hvort við vildum sameinast. Þetta lýsir því vel hversu lýðræðislega þenkjandi hreppsnefndin okkar er. Líka því hversu húsbóndaholl hún er gagnvart ríkisstjórninni. Úr því að það var ljóst að félagsmálaráðuneytið vill þrýsta á sveitarfélög til sameiningar var bara gengið hreint til verks. Verði þeirra vilji – eða þannig. Vandinn var bara sá að finna út hvaða sameiningarkost léttast væri að fá hreppsbúa til að samþykkja. Skoðanakönnunin var hagnýt í þeim tilgangi. Sameiningarnefndinni hafði nefnilega ekki dottið í hug að draga Hafnarfjörð inn í dæmið. Sú hugmynd hlýtur að hafa fæðst hjá hreppsnefndinni – og margir hreppsbúar svöruðu í símann og hugsuðu að líklega væri það illskásti kosturinn.
Í desember var sem sagt ekki boðið upp á að hafna sameiningu. Nú vaknar sú spurning hvað muni standa á kjörseðlinum sem við fáum á laugardaginn. Verður þar boðið upp á NEI? Verða þar e.t.v. mörg JÁ í mismunandi litum?
Þorvaldur Örn Árnason
Kirkjugerði 7, Vogum