Verðtrygging
Í samfélagi sem reist er á grunni almannahagsmuna og réttlætis gengur ekki að fjármagnseigendur séu tryggðir fyrir áföllum í hagkerfinu en almennir borgarar beri áhættuna og kostnaðinn.
Við sem höfum tekið lán á síðustu árum vitum að verðtryggingin hefur leikið okkur grátt þegar verðbólga hefur verið allt að 18%. Það vandamál er samt sem áður lítið í samanburði við það sem hún leiddi yfir foreldra mína og þeirra kynslóð í yfir 100% verðbólgu. Slíkt er ekki hægt að líkja við annað en hamfarir og á meðan verðtrygging er eins og hún er í dag eru slíkar hamfarir alltaf yfirvofandi.
Árið 1980 byggðu foreldrar mínir hús í nýju hverfi. Þau höfðu góðar tekjur og sáu að sjö manna fjölskylda gat ekki búið lengur í þriggja herbergja íbúð. Í júní árið áður hafði þingið sett svokölluð Ólafslög sem fela í sér verðtryggingu fjárskuldbindinga. Á þeirri stundu sem þau tóku ákvörðunina um húsbygginguna höfðu þau enga möguleika á að sjá fyrir þær hörmungar sem þau voru að kalla yfir sig.
Næstu 10 ár snerist líf þeirra um að bjarga sér frá gjaldþroti og uppboðum og við systurnar sáum varla foreldra okkar á meðan á því björgunarstarfi stóð. Ég man vel eftir mömmu grátandi yfir lánayfirlitinu og í baráttu þeirra við yfirlitið voru sumarfrí og verklausar stundir ekki lengur hluti af lífi fjölskyldunnar. Þeim gekk aðeins það eitt til að eignast þak yfir höfuðið.
Þá vissi ég ekkert um verðtryggingu en ég sá að þeir sem höfðu byggt hús nokkrum árum fyrr gátu leyft sér ýmislegt sem fólkið í götunni okkar gat ekki. Allir í götunni virtust vera í sömu stöðu. Þeir sem ekki höfðu möguleika á endalausri vinnu misstu húsin sín eða seldu án þess að eiga nokkra möguleika á því að húsverðið næði að borga lánin. Í mínum huga var algerlega augljóst að það var eitthvað mikið að því kerfi sem foreldrar mínir voru lentir í og það stríð sem þau þurftu að há var handan þess sem hægt er að ætlast til af nokkrum manni.
Í ályktun Landsfundar Vinstri grænna sem haldinn var um síðustu helgi var því kerfi hafnað sem býr að baki verðtryggðum lánum og lagt til að fjármálakerfið á Íslandi verði endurskoðað með réttlæti og almannahagsmuni að leiðarljósi. Samþykkt var að taka sérstaklega á þeirri ójöfnu stöðu sem lántakendur hafa gagnvart lánveitendum í verðtryggðu lánakerfi.
Þess vegna verða Vinstri græn að beita sér gegn verðtryggingunni, ekki bara vegna þess að það er í tísku og gæti gefið atkvæði – heldur vegna þess að það er óásættanlegt að bjóða upp á verðtryggingu í samfélagi þar sem réttlæti ríkir og gæðum er jafnt skipt.
Inga Sigrún Atladóttir
2. sæti VG í Suðurkjördæmi