Vélhjólafólk stofnar samtök
Hópur áhugafólks um ferðamennsku og útivist á vélhjólum (tví- og fjórhjólum) hefur ákveðið að stofna félag sem hefur m.a. það að markmiði að auka þekkingu vélhjólafólks, sem og almennings, fjölmiðla og stjórnvalda, á notkun vélhjóla til ferðalaga og útivistar. Félagið mun miðla upplýsingum um akstursleiðir, standa fyrir ferðum og fræðslufundum.
Mikill uppgangur er í notkun vélhjóla til ferðamennsku og útivistar á öllu landinu. Notkunin er bundin við akstursleiðir á lág- sem hálendi, mest á sumrin og haustin, en harðfennisakstur á vetrum hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Aðstaða til aksturs vélhjóla á Íslandi er í flesta staði viðunandi og í sátt við samfélag og umhverfi.
Vélhjólafólk á Íslandi sem notar hjólin sín til ferðalaga og útivistar hefur ekki átt ötulan málsvara undanfarin ár og er áhugi á að breyta því. Markmiðum sínum hyggst félagið m.a. ná með því að ná til sem flestra þeirra sem ferðast á vélhjólum, hvort sem um ræðir létt eða þung hjól (tví- eða fjórhjóla), samvinnu við sveitarfélög og aðra þá sem geta stuðlað að því að þau náist.
Stofnfundur félagsins verður 15. janúar kl. 20:00 á Hótel Loftleiðum, Bíósalnum. Allt áhugafólk um ferðalög og útivist á vélhjólum velkomið. Dagskrá fundarins má sjá á www.slodavinir.org.