Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Velferð Voga
Mánudagur 15. mars 2010 kl. 09:46

Velferð Voga

Það er óhætt að staldra við á þessum tímamótum og fara yfir það sem gerst hefur á yfirstandandi kjörtímabili í Sveitarfélaginu Vogum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

E-listinn, listi Strandar og Voga hefur stýrt sveitarfélaginu á líðandi kjörtímabili. Þetta er fyrsta kjörtímabil E- listans í meirihluta í Vogum. E-listinn var myndaður úr tveimur fyrri framboðum í Vogum, þ.e. T og V – lista. Sú sameining gekk vel og síðan hefur E-listinn bætt við sig fólki úr öllum áttum. E-listinn er því samblanda af fólki úr öllum stjórnmálaflokkum og einnig fólki sem stendur fyrir utan hin hefðbundnu pólitísku framboð. Innan raða hans er fólk sem hefur metnað fyrir því að þjóna íbúum sveitarfélagsins og leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. E-listinn markaði nýja stefnu fyrir kjörtímabilið og er rétt að rifja hana upp með íbúum Voga.


Opin og gagnsæ stjórnsýsla

E-listinn fór í gagngera endurskoðun á stjórnsýslu sveitarfélagsins þar sem nefndir, skipulag og innri verkferlar voru teknir til endurskoðunar. Nefndir voru sameinaðar, ný heimasíða leit dagsins ljós, ábyrgð forstöðumanna við fjárhagsáætlun var aukin og vinnubrögðum við fjárhagsáætlunargerð var breytt. E-listinn hefur haldið fjölmarga íbúafundi á kjörtímabilinu um ýmis málefni s.s. fjárhagsáætlun, öryggismál, skipulagsmál, málefni eldri borgara og íþrótta- og æskulýðsmál svo eitthvað sé nefnt. Ýmis fagleg stefnumótunarvinna hefur farið fram. Skólastefna sveitarfélagsins hefur litið dagsins ljós og nú stendur yfir vinna við atvinnustefnu sveitarfélagsins.


Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
E-listinn markaði sér þá stefnu að viðhalda fjölskylduvænu umhverfi og setti sitt fyrsta kosningaloforð með “Gjaldfrjálsum skólamáltíðum” Þar var farin leið sem á sér enga hliðstæðu en stefnunni er meðal annars ætlað að skapa frekara svigrúm fyrir auknu íþrótta- og tómstundastarfi barna og unglinga. E-listinn hefur staðið fyrir því að kom á fót samstarfssamningum við flest félagasamtök í sveitarfélaginu þar sem skerpt er á samskiptum og samvinnu sveitarfélagsins og félagasamtaka. Þessi samvinna hefur skilað sér í auknu barna- og unglingastarfi, m.a. í íþróttafélaginu, björgunarsveitinni, golfklúbbnum og nú síðast skátafélaginu Vogabúum. Fjölskyldudagurinn hefur verið efldur og fleiri viðburðir bæst við. E-listinn hefur staðið þétt við bak barna- og unglingastarfs í Vogum. Einnig hefur aðstaðan í skóla og leikskóla verið bætt til muna.


Stutt við frumkvæði í menningarmálum
E-listinn hefur beitt sér fyrir auknum menningartengdum verkefnum sem sjá má t.d. á sameiginlegu verkefni með einkaaðilum við uppsetningu fyrsta opinbera listaverksins í Vogum sem ber nafnið “Íslands Hrafnistumenn” og er eftir Erling Jónsson. Auk þess hefur sveitarfélagið tekið þátt í ýmsum uppákomum ásamt félagasamtökum og einstaklingum og stuðlað þannig í samvinnu við íbúa að betra samfélagi. Mikið menningarsamstarf er milli sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem menningarsamningur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisins er í forgrunni. Fjöldi menningartengdra verkefna hafa fengið styrk úr þeim sjóð, s.s. Hlaðan, Stóru-Vogaskóli, ofl. Fyrsti vinabær sveitarfélagsins mun vonandi líta dagsins ljós í haust en sú vinna er í fullum gangi.


Fegrun bæjarins og umhverfismál
Tekið hefur verið til hendinni í umhverfismálum. Er þar af nægu að taka enda var kominn tími á að eitthvað róttækt væri gert í þeim málum. Endurbætur á norðurbakka Vogatjarnar, endurbætur á Aragerði eru framkvæmdir sem ráðist var í á liðnu sumri. Einnig hefur mikið verið gert í almennum frágangi og snyrtingu á opnum svæðum og göngustígum, s.s. lýsingu, leiksvæðum ofl. Umhverfismál snúast þó ekki bara um fagra ásýnd heldur einnig lífsgæði. Í aðalskipulagsvinnu hefur meðal annars verið unnið að því að móta heildstæða stefnu í málefnum sem snúa að umhverfi, íbúum og atvinnulífi, öllum til hagsbóta. Nýtt vatnsból hefur verið tekið í notkun og á þessu ári er stefnt á að fara í endurbætur á frárennsliskerfi bæjarins sem hefur setið á hakanum allt of lengi.


Skipulag og uppbygging mörkuð til næstu ára
Mikil vinna hefur farið í aðalskipulag sveitarfélagsins sem nú er lokið sem og hin ýmsu deiliskipulög sem lokið er við eða eru í vinnslu. Nú stendur til að mynda yfir deiliskipulagsvinna við íþróttavallarsvæðið, sem og Kálfatjörn sem er sameiginlegt starfssvæði Golfklúbbs Vatnsleysustrandar, Kálfatjarnarkirkju og Minjafélags Vatnsleysustrandar. Einnig liggur fyrir deiliskipulag fyrir íbúðabyggð í Grænuborgarhverfi norðan byggðar ásamt því að unnið hefur verið að skipulagi austan byggðar sem og svokölluðu miðbæjarsvæði en þar er meiningin að miðbæjarkjarni rísi í framtíðinni. Á árinu verður ráðist í uppbyggingu og endurbætur á íþróttarvallarsvæði bæjarins og farið verður í endurbætur á leikskólalóð svo eitthvað sé nefnt. E-listinn mun á næstu árum einbeita sér að umhverfisvænum verkefnum, svokölluðum einskiptisverkefnum sem ekki munu auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins til muna. Þannig má veita innspýtingu í mannaflsfrek verkefni en halda rekstrarkostnaði í lágmarki. E-listinn vinnur faglega enda sýnir framgangur hinna ýmsu mála síðastliðinna ára það. Öllum verkum er fundinn réttur farvegur innan stjórnkerfisins.


Traustur fjárhagur
Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk. Megin forsenda fyrir þeirri stöðu er sú ákvörðun E-listans að selja bréf sveitarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja og endurskipulagning í fjármálum sveitarfélagsins. Framfarasjóður sveitarfélagsins hefur ávaxtast vel og nýtist til góðra verka enda með eina bestu ávöxtun allra sjóða á landinu. Sveitarfélagið Vogar glímir hins vegar við ákveðinn rekstrarvanda líkt og önnur sveitarfélög, sem þarf að takast á við óháð stöðu Framfarasjóðs. Við förum ekki varhluta af stöðunni í þjóðfélaginu og hagræðum eins og aðrir þar sem það er hægt. Það er verkefni sem fulltrúar E-listans treysta sér til að takast á við, hvað svo sem líður kosningum í vor.


Þessi upptalning hér að framan er engan veginn tæmandi fyrir þá vinnu sem farið hefur fram á líðandi kjörtímabili en hún ætti að vera lýsandi fyrir það sem gert hefur verið og það sem þarf að gerast til að sveitarfélagið nái árangri. Framtíð Sveitarfélagsins Voga veltur á því hversu vel er haldið á málum sveitarfélagsins fjárhagslega. Traust og ábyrg fjármálastjórnun er lykilþáttur í styrkingu stoða samfélagsins til framtíðar.


Takið þátt í að móta framtíðina
Undanfarnar vikur hefur E – listinn haldið opna fundi um helstu málefni sveitarfélagsins. Þar hefur meðal annars verið rætt um fræðslu-,íþrótta- og tómstundamál, umhverfis- og skipulagsmál og fjármál. Þangað hafa íbúar mætt og viðrað sínar skoðanir og komið með tillögur.
Á næstu vikum heldur málefnastarf E-listans áfram og hvetjum við alla íbúa sem áhuga hafa á málefnum sveitarfélagsins að mæta og koma sínum skoðunum á framfæri og taka þátt.


Stuðlum að áframhaldandi velferð í Sveitarfélaginu Vogum.


Birgir Örn Ólafsson
forseti bæjarstjórnar
Sveitarfélagsins Voga