Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Vel heppnað íbúaþing um menntamál í Reykjanesbæ
Frá íbúaþinginu í Stapa
Mánudagur 11. apríl 2016 kl. 06:00

Vel heppnað íbúaþing um menntamál í Reykjanesbæ

Þann 8. mars sl. var haldið íbúaþing um menntamál í Stapa en eins og lesendum er líklega kunnugt um þá er vinna við gerð nýrrar menntastefnu í fullum gangi. Það er mál manna að íbúaþingið hafið heppnast í alla staði mjög vel, mæting var mjög góð, líflegar umræður sköpuðust um ýmis málefni sem snerta nám og velferða barna og ungmenna í Reykjanesbæ. Á þinginu var stuðst við svokallað heimskaffi þar sem áhersla er lögð á þægilegt andrúmsloft og frelsi til þess að tjá skoðanir, einskonar kaffihúsastemmning. Hver þinggestur valdi sér tvö málefni til þess að ræða en á hverju borði voru gestgjafar sem stýrðu umræðum og héldu utan um niðurstöðurnar sem voru fjölbreyttar og munu nýtast vel í þeirri vinnu sem nú stendur yfir. Samantekt á niðurstöðum hafa þegar verið sendar til þátttakenda.

Formleg skólaganga og þátttaka í skipulögðu tómstunda- og íþróttastarfi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nokkur málefni lágu til grundvallar en öll sneru þau á einn eða annan hátt að námi og velferð barna og ungmenna.  Í umræðunni um formlega skólagöngu kom mjög skýrt fram að gott sjálfstraust, færni í samskiptum, gagnrýnin hugsun og sköpun eru eftirsóknarverðir eiginleikar hjá hverjum einstaklingi. Læsi í víðum skilningi var mikið rætt og almenn góð bókleg og verkleg menntun.

Með þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi voru þátttakendur sammála um að það þyrfti að vera eitthvað í boði fyrir alla og að íþróttir og tómstundir eigi að hafa forvarnarhlutverki að gegna. Mikilvægt sé að hafa faglega og vel menntaða þjálfara, leiðbeinendur, kennara og leiðtoga í öllu tómstundastarfi og velferð barnsins þarf ávallt að hafa að leiðarljósi. Í þessu samhengi var rætt um að auka þyrfti stuðning við innra starf íþróttafélaga.

Gott skólasamfélag

Samvinna og samskipti allra sem hlut eiga að máli, jafnrétti til náms, sköpun, viðhorf og gildi eins og virðing, metnaður, áhugi, fagmennska, jákvæðni, traust, umhyggja, gleði og jákvæður agi eru mikilvæg til þess að byggja upp gott skólasamfélag að mati þinggesta. Með skólasamfélagi er átt við foreldra, nemendur, skóla, bæjaryfirvöld og aðra sem koma að barninu. Jafnrétti til náms, árangursríkt skólastarf með vel menntuðum og ánægðum starfsmönnum og meðvitaðir og ánægðir nemendur  þurfa að vera til staðar í góðu skólasamfélagi.

Í umræðunni um það hvaða leiðir hægt sé að fara til þess að efla samstarf milli heimila og skóla og hvetja foreldra til þátttöku komu fram margar hugmyndir að leiðum til að efla samstarfið en allar höfðu þær sama markmiðið að leiðarljósi, að samstarfið sé ávallt um hag barnsins. Námskeið, málstofur, fræðsluerindi, foreldrasáttmálar var meðal þess sem kom fram til þess að efla foreldra í hlutverki sínu. Einnig var rætt um að sérstaklega þyrfti að ná til foreldra af erlendum uppruna.

Skuldbinding til náms og flæði á milli skólastiga

Þátttakendur ræddu talsvert um mikilvægi viðhorfsbreytingar til menntunar í samfélaginu og að hún þurfi að vera víðtæk. Skuldbindingu til náms sé nauðsynlegt að innleiða með markmiðasetningu og að foreldrar séu meðvitaðir um nám barna sinna upp allan grunnskólann og í framhaldsskóla, foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs. Bregðast þarf við svokölluðum brottfallsnemendum og fylgja þeim eftir. Námsráðgjöf þarf að efla í grunn- og framhaldsskólum til þess að minnka líkur á brottfalli og styrkja alla nemendur. Efla þarf þrautseigju í námi og úthald. Gera þarf verk- og iðngreinum hærra undir höfði, en það viðhorf virðist ríkjandi að allflestir eigi að fara í bóknám.

Margar hugmyndir komu fram um samstarf og flæði á milli leik- og grunnskóla annars vegar og grunn- og framhaldsskóla hins vegar. Samstarfið þarf að vera í báðar áttir, einkennast af virðingu og með hagsmuni barnsins/ungmennisins að leiðarljósi. Samræma þarf samstarfsáætlun milli allra skóla í Reykjanesbæ. Stjórnendur spila lykilhlutverk í slíku samstarfi og nauðsynlegt er að gefa tíma til samstarfsins. Það þarf að vera skýrt hver ber ábyrgð á samstarfinu og allir hagsmunaaðilar séu meðvitaðir um tilgang samstarfsins.

Horft fram á veginn

Eins og fram hefur komið þá er vinna við gerð nýrrar menntastefnu í fullum gangi og er áætlað að þeirri vinnu ljúki nú í vor. Í raun má segja að slíkri vinnu ljúki aldrei heldur er stefna sem þessi í sífelldri endurskoðun. Við þökkum þeim fjölmörgu sem sáu sér fært að mæta á íbúaþingið fyrir þátttökuna og ríkulegt framlag til mótun nýrrar menntastefnu fyrir Reykjanesbæ. Þá færum við einnig Skólamat kærar þakkir fyrir veitingarnar á þinginu.

Fyrir hönd stýrihóps um nýja menntastefnu fyrir Reykjanesbæ.
Anna Hulda Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir verkefnastjórar