Veira, eldgos eða flóðbylgjur
Við glímum sem samfélag við eignatjón, fjártjón og manntjón á ári hverju. Í forgangi er að koma í veg fyrir manntjón. Það hefur orðalítið verið samþykkt sem ein meginmanngildishugsjón okkar. Það er líka meginmarkmið sóttvarnaraðgerða, björgunaraðgerða á sjó og landi, brottflutningsáætlana vegna náttúruvár o.s.frv. Slík viðbrögð reyna á samheldni, þolinmæði og þrautseigju. Þau eru unnin fyrst í kapp við framvindu ógnarinnar, af öryggi, og greitt úr afleiðingunum samhliða, eftir getu. Svo enn betur þegar um hægist. Fyrirsjáanleiki og langtímaáætlun eru tálsýnir. Viðbrögðin eru ekki unnin samkvæmt kaldrifjuðum útreikningi á „mögulegum heildaráhrifum aðgerðanna til langs tíma á efnahag þjóðarinnar“. Það gengur ekki upp gagnvart þeim sem treysta á aðstoð og björgun. Viðbrögðin eru fjár-, mannafla- og tímafrek vörn við vánni og felast í breytilegri vástjórnun og aðlögun að aðstæðum, ógnarinnar vegna, viku eftir viku á meðan ástandið varir. Eignatjón og fjártjón er glímt við samhliða en er ekki í fyrsta sæti. Reynt að lágmarka og bæta slík tjón eftir því sem unnt er án þess að mannslátum fjölgi þess vegna.
Hugmyndir um önnur gildisviðmið eiga ekki við og munu ekki ná meirihlutafylgi í landinu, þrátt fyrir gagnrýni á aðgerðir og starfshætti heibrigðisþjónustunnar og stjórnvalda. Gildisviðmiðin birtast til dæmis í hugmyndum um að ná hjarðónæmi eða slaka mjög á viðbrögðunum þrátt fyrir að 20–25% íbúa séu í mesta áhættuhópi, algeng og langvinn eftirköst eftir kórónuveikina og þátt fyrir núverandi álag á velferðar- og heilbrigðiskerfin. Hollt er að horfa til spænsku veikinnar 1918–1919. Þá bjuggu hér um 92.000 manns, heilbrigðisþjónustan var fámenn og barn síns tíma, veiran skæð, húsakostur misjafn og innviðir veikir. Mörg þúsund manns veiktust, þjáðust og þraukuðu heima fyrir; flestir um 500 manna, sem létust, dóu þar. Allmargir jöfnuðu sig seint eða aldrei. Sjálfboðaliðar reyndu að aðstoða heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld mánuðum saman. Þessu til viðbótar gengu tveir flensufaraldrar yfir með veikindum og mjög líklega mannslátum.
Mér sem starfandi stjórnmálamanni ber að fylgja þeim manngildishugsjónum sem við flest aðhyllumst og fylgjum í verki eins og nú er gert. Get sem vísindamaður sett mig inn t.d. inn í nýja Skaftárelda og séð fyrir mér sömu afstöðu og sömu megin vinnubrögð.
Ari Trausti Guðmundsson.
Höfundur er þingmaður VG.