Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Veiðigjald eða skattur
  • Veiðigjald eða skattur
Miðvikudagur 30. apríl 2014 kl. 11:35

Veiðigjald eða skattur

–Ásmundur Friðriksson skrifar

Það er ýmislegt að athuga við frumvarp til breytingu á lögum um veiðigjöld nr. 74/2012 sem lagt hefur verið fram í þinginu, en það ber líka með sér jákvæðar lagfæringar frá fyrri lögum. Okkur hefur ekki borið gæfa til að leggja frumvarpið fyrr fram og við erum í annað sinn að framlengja lög um veiðigjald til eins árs. Við verðum því að leggja okkur fram á síðustu dögum þingsins og ljúka málinu og vonandi tekst okkur að slípa frumvarpið til í meðförum þingsins. Í fyrsta lagi er frumvarpið að ganga lengra en ég hefði kosið og er frekar skattur en eðlilegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Þá hef ég áhyggjur af því að lögin stuðli að enn frekari samþjöppun í greininni sem er þó ærin fyrir. Það er ekki til góðs að gengið verði lengra á því sviði. Samþjöppun var nauðsynleg á upphafsárum kvótakerfisins en nú höfum við gengið þann veg lengra en á enda. Við höfum mörg stór og glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi sem geta betur staðið undir háum veiðigjöldum í skamman tíma og þau eru mikilvæg undirstaða fyrir greinina. Einstaklingsútgerð er og hefur verið mikilvægur hluti atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum og þolir síður þetta háa gjald en það er mjög mikilvægt að við tryggjum útgerð og vinnslu á landsbyggðinni.
 
Veiðigjald á að vera hóflegt gjald sem endurspeglar þau verðmæti og arð sem auðlindin skapar útgerðinni. Það gjald eiga allir að greiða óháð skuldastöðu fyrirtækjanna að mínu viti. Veiðigjald á að vera af lönduðum afla ekki úthlutuðum heimildum og mikilvægt að lögin taki þeim breytingum. Það er óréttlátt að útgerðir greiði gjald af óveiddum tegundum. Á síðustu loðnuvertíð náðist ekki að veiða 163 þús. tonna kvóta sem var þó mjög lág úthlutun. Margar útgerðir áttu því óveiddar heimildir sem námu hundruðum og jafnvel þúsundum tonna sem þær greiddu engu að síður fullt veiðigjald fyrir. Náttúrulegar aðstæður geta valdið því að ekki náist allur úthlutaður kvóti og þá sérstaklega í uppsjávartegundum og því mikilvægt að binda gjaldið við landaðan afla.
 
Þá er það andstætt minni hugmynd um veiðigjaldið að renta af fiskvinnslu hafi íþyngjandi áhrif á gjaldið og það hefur sérstaklega slæm áhrif á þær útgerðir sem ekki eru tengdar vinnslu. Það er afar ósanngjarnt að einstaklingsútgerðir ótengdar fiskvinnslunni greiði gjald grundvallað á hagnaði vinnslunnar. Við erum að tala um veiðigjald af auðlindinni ekki vinnslunni. Þar koma til annars konar hugmyndir t.d. markaðsgjald til að auglýsa íslenska framleiðslu eða það sem ég hef verið óþreyttur á að tala um, hækkun launa til fiskvinnslufólks sem kæmi öllum aðilum best. Ég er reyndar ekki sérstaklega áhugasamur eða uppfinningasamur um skatta á fyrirtæki eða einstaklinga. Samkvæmt lögunum er heildarfjárhæð veiðigjalda ákveðin sem 35% af grunni sem er allur hagnaður (EBT) við veiðar og 20% af hagnaði fiskvinnslu. Þá má deila um veiðigjaldið og hvað það leggst þungt á útgerðina en það er út úr öllu korti að útgerðir sem ekki eru tengdar vinnslu beri gjald vegna hagnaðar af fiskvinnslunni. Einstaklingsútgerðir munu ekki hafa bolmagn til að standa undir slíku gjaldi og á endanum gefast þær upp og samþjöppun í greininni verður meiri og alvarlegi en ástæða er til. Þá kemur veiðgjaldið misjafnlega niður á byggðum landsins og landsvæðum.
 
Það er því margt sem þarf að skoða við veiðigjaldið og þingið þarf að ljúka við og samþykkja á næstu þremur vikum. Gjaldið er bráðabirgðagjald og sett á til eins árs. Ég hef talað fyrir einföldu hóflegu en lifandi veiðigjaldi sem tekur á breytingum á mörkuðum frá degi til dags. Einföld prósenta af verði á mörkuðum sem tekur mið af verðmæti hvers söludags landaðs afla er skiljanlegt og sanngjarnt kerfi. Núverandi kerfi byggir á rauntölum frá árinu 2012 sem var mjög gott ár í afkomu veiða og vinnslu en á árinu 2014 eru markaðir veikir og afurðaverð lægri og því ljóst að veiðigjaldið er of hátt miðað við forsendur í dag. Við höfum því verk að vinna og vonandi náum við lendingu sem sátt næst um.
 
Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024