Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Varnarmálastofnun - Landhelgisgæsla
Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 18:44

Varnarmálastofnun - Landhelgisgæsla

Þegar  frumvarpið um Varnarmálastofnun kom fram á Alþingi á síðasta ári,  var málið umdeilt.  Nú virðist sem stofnunin sé aftur komin í umræðuna. Fram hefur komið að  utanríkisráðherra sé með málefni stofnunarinnar  til rækilegrar endurskoðunar og segir málefni hennar vera forgangsmál.

Vinstri grænir vilja leggja Varnarmálastofnun niður og benda á  mikinn kostnað sem fari í að reka  hana,  sem hægt væri að spara ef hún væri lögð niður.  

Ég get vissulega tekið  undir með þeim sem segja að það þurfi að spara í ríkisrekstrinu og leita til þess allra leiða. Að leggja niður Varnarmálastofnun og hætta hér loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu tel ég að sé  ekki skynsamlegt. Málið varðar samstarf og þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Til að ná fram sparnaði í þessum málaflokki er hægt að horfa á aðrar leiðir en að leggja stofnunina niður. Það ætti að skoða það mjög vel hvort ekki sé rétt  að sameina Varnarmálastofnun og Landhelgisgæsluna og flytja Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvöll.  Í þeirri sameiningu gæti falist verulegur sparnaður til lengri tíma litið.  Sameining og samstarf á sviði öryggis- og varnarmála mun opna möguleika sem áður voru lokaðir, t.d.  aukið aðgengi að upplýsingum og sameiginleg innkaup innan Atlantshafsbandalagsins sem mun leiða til sparnaðar í ríkisútgjöldum.

Á Keflavíkurflugvelli er til staðar allt það húsnæði sem þarf. Flugskýli, skrifstofuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Landrými er auk þess nægjanlegt til hvers konar æfinga í þessari fyrrum varnarstöð sem þjónaði sem öryggis- og varnarsvæði landsins í áratugi.

 Þegar Varnarliðið fór af landi brott fékk íslenska ríkið mikið af góðu húsnæði í fangið. Nú þarf að hagræða og sameina stofnanir til að ná fram sparnaði. Nú er ekki tími til að byggja flugskýli á Reykjavíkurflugvelli eða skrifstofuhúsnæði. Það er allt til staðar á Keflavíkurflugvelli og býður þess að stjórnvöld sjái að auðvitað er það skynsamlegast að flytja starfsemina þangað og sameina þessar tvær stofnanir í eina öfluga stofnun.
 
Björk Guðjónsdóttir alþingismaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024